Hvalreki vakti nokkra athygli á Höfðahólum í vikunni þegar hvalshræ sást í fjörunni fyrir neðan útsýnisstaðinn í norðanverðum Höfðahólum á Höfðaströnd í austanverðum Skagafirði. Það var Halldór Gunnar Hálfdansson bóndi á Molastöðum í Fljótum sem greindi frá fundinum á Facebook og deildi vídeói af hræinu.

Á fyrri tíð hefði slíkur fundur talist mikill happafengur. Hvalreki gat fætt heilu byggðirnar þegar illa stóð á og ekki óalgengt að til ágreinings kæmi milli landeigenda um hver fengi að nýta verðmætin. Þeir tímar eru þó liðnir og enginn lagður af stað með beitta hnífa í þetta sinn.

Hræið er nú töluvert farið að láta á sjá og vart ástæða til að hefja reykingar eða súrsun að fornum sið.

Sérfræðingar sem skoðuðu myndirnar telja fullvíst að um hnúfubak sé að ræða, þessa tignarlegu ferðalanga hafsins sem kunnugir þekkja af glæsilegum stökkum og einkennandi söng.

Mynd og vídeó: Halldór Gunnar Hálfdansson