Hallgrímur Helgason sýnir ný málverk í Kompunni, í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Undanfarið höfum við lifað með nýrri viðbót við hversdaginn: Dagleg stríðsmorð í okkar álfu. Innrás Rússa í Úkraínu skók okkur flest og fyllti okkur reiði gagnvart ráðamönnum þeirra. Um leið var hún líka reiðin út í okkar eigin ráðaleysi. Þegar síðan einn lengsti og versti kaflinn í langvinnu þjóðarmorði Ísraela á Palestínumönnum hófst í október 2023, eftir sjaldgæft en blóðugt andsvar þeirra síðarnefndu, bættust við hin daglegu barnamorð sem við höfum nú þolað á skjám okkar í heila níu mánuði.

Óbærilegast er dáðleysi okkar fólks gagnvart morðingjunum. Þeir nota sprengjur og vopn frá Vesturlöndum og skáka í skjóli aldalangrar samstöðu Evrópu og Bandaríkjanna með yfirgangi og ofbeldi þeirra á landi annars fólks. Í heilan mannsaldur höfum við barist gegn nýlendustefnu og rasisma, aðeins til að sjá stjórnmálamenn okkar standa með hvorutveggja sem aldrei fyrr.

Með sýningunni Stríðsfórnarlömb vill listamaðurinn beina athyglinni frá barnamorðunum sem fylla síma okkar allan sólarhringinn að fólkinu sem ber ábyrgð á þeim og fólkinu sem gæti mögulega stöðvað þau. Athafnaleysi er afstaða.

Á sýningunni eru ný málverk sem öll eru portrett af stjórnmálafólki og þjóðarleiðtogum vorra daga og spanna skalann frá Pútín til Biden. Allt þetta stjórnmálafólk verður dæmt af samstöðu sinni með þjóðarmorðunum tveimur. Allt er það Stríðsfórnarlömb.

Þetta er fyrsta sýning Hallgríms á Siglufirði en hann hefur á undanförnum árum dvalið þar í bókmenntaheimi sínum í Sextíu kílóa sögu sinni. Verkin eru öll unnin á þessu ári, máluð í Hrísey og Reykjavík, upp úr fréttaljósmyndum.

Hallgrímur Helgason er þekktur fyrir skáldsögur sínar og skrif en hefur einnig sýnt myndlist víða um lönd, á einka- og samsýningum. Hann hefur nær eingöngu haldið sig við málverk og teikningar á löngum ferli og á verk í eigu safna hérlendis og erlendis. Þar á meðal eru FRAC-Poitou Charentes í Angouleme í Frakklandi og Metropolitan-safnið í New York. Sýning hans í Kompu er ein af fjórum sem hann heldur á þessu ári. Á útmánuðum sýndi hann Hópmyndir af sjálf í listamiðstöðinni Nordatlantens brygge í Kaupmannahöfn. Hluti þeirrar sýningar verður settur upp í Nordatlantisk hus í Óðinsvéum í lok ágúst. Og í október opnar miðferlis-yfirlitssýning hans í Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum.

Victims of War

Hallgrímur Helgason shows new portraits in Kompan, Siglufjörður. All the works are done this year and depict various national leaders and high ranking politicians, people responsible or co-responsible for the two genocides of our time, in Ukraine and Palestine. History will be hard on those people, they are all Victims of War.

An acclaimed writer, Hallgrímur Helgason is also a painter who has held over thirty solo- shows in various countries and has participated in even more group shows. Works by him are owned by many art museums, including Frac-Poitou Charentes in Anguleme, France and The Metropolitan Museum of Art in New York. In 2021 he was awarded the French medal Officier des les arts et des lettres.