Í gær, fimmtudaginn 20. febrúar, var bæjarlistamaður Fjallabyggðar formlega útnefndur en Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 21. nóvember 2024 að útnefna Kristínu R. Trampe Bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2025. Er það í 16. sinn sem nefndin útnefnir bæjarlistamann Fjallabyggðar.

Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.

Menningartengdum styrkjum var úthlutað í eftirfarandi flokkum: Styrkir til menningarmálastyrkir til hátíðarhalda og stærri viðburða og styrkir til reksturs safna og setra.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2025 að upphæð kr. 13.900.000.-. Þar af fara kr. 3.625.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 6.550.000.- til hátíðarhalda og stærri viðburða, kr. 3.725.000.- til reksturs safna og setra og þjónustusamnings vegna náttúrugripasafns. Áfram verður veittur styrkur til bæjarlistamanns og er upphæð hans kr. 400.000.-

Ægir Bergsson formaður markaðs- og menningarnefndar setti hátíðina og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp og afhenti styrkina ásamt Ægi. Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála, veitti bæjarlistamanni viðurkenninguna. Við athöfnina voru flutt glæsileg tónlistaratriði. Fram komu þau Eva Karlotta, Ragna Dís og Fannar. Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar frá Aðalbakaranum á Siglufirði.

Fjallabyggð þakkar fráfarandi bæjarlistamanni, Ástþóri Árnasyni hans framlag til menningar og lista á árinu en Ástþór hélt sýningu á verkum sínum í Ráðhússalnum um páskana.

Fjallabyggð óskar styrkhöfum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru og Kristínu R. Trampe innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2025.

Kristín R. Trampe og Ríkey Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála.
Mynd/ Albert Gunnlaugsson.

Myndir/af vefsíðu Fjallabyggðar