Íbúar á Vatnsnesi komu saman við Illugastaði vestan megin á Vatnsnesi og reistu þar skilti með skilaboðum til ferðamanna þar sem óskað er eftir aðstoð þeirra við að benda á slæmt ástand Vatnsnesvegar.

Um 600 ferðamenn koma á Illugastaði á degi hverjum yfir sumartímann til að virða fyrir sér seli. Fleiri skilti verða sett upp á fjölförnum ferðamannastöðum á nesinu. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins nýlega.

Rætt var við Guðrúnu Ósk Steinbjörnsdóttur, sem er íbúi á Vatnsnesi. Hún sagði aðgerðirnar vera til þess fallnar að vekja athygli á ástandinu. „Við erum að hvetja ferðamenn til að taka þátt í baráttunni með okkur með því að taka mynd af náttúruperlum sem er að finna hér um svæðið, merkja þær með myllumerkinu okkar #vegur711 og benda á ástand vegarins,“ sagði Guðrún.

Einnig var rætt við Kristmund Ingþórsson skólabílstjóra sem hefur ekið börnum til og frá skóla frá árinu 1972 sagði veginn vera skelfilegan. „Vegagerðin var að hefla veginn núna eftir helgina, hann var orðinn alveg rosalegur, kaflar í honum. En hann er að fara aftur þegar það eru svona miklar bleytur,“ sagði Kristmundur.

Sjáðu frétt Ríkissjónvarpsins hér.

Af huni.is
Forsíðumynd: skjáskot úr fréttum RUV