Helgi S. Ólafsson rafvirkjameistari starfaði sem organisti Hvammstangakirkju frá miðjum sjöunda áratug síðustu aldar í hart nær 40 ár.

Árið 1987 hljóðritaði hann 17 vel þekkta jólasálma sem hann lék á pípuorgel Hvammstangakirkju.

Orgelið, sem er danskt frá Bruno Christensen, var keypt og smíðað í organistatíð Helga og vann hann ötullega að því af kostgæfni að finna rétta hljóðfærið í kirkjuna og átti stóran þátt í hvernig það er samsett, því plássið er ekki mikið en hann lagði áherslu á að hljóðfærið nýttist vel jafnt til helgihalds og orgeltónleika.

Upptakan kom út á kassettu sama ár en síðan árið 2011 var frumupptakan færð yfir á stafrænt form, tónjöfnuð og gefin út á geisladiski.

FM Trölli mun flytja diskinn “17 Jólasálmar” í heild í dag, aðfangadag kl. 18.


Helgi Sæmundur Ólafsson fæddist á Siglufirði 23. ágúst 1937 en móðir hans, Ingibjörg Sigurðardóttir var fædd og uppalin í Héðinsfirði. Faðir Helga var Ólafur Tryggvason og bjuggu þau lengi í Kothvammi, ofan við Hvammstanga.