Umhverfisdagar Skagafjarðar 2019 hófust miðvikudaginn 15. maí. Í ár eru 30 ár frá því að umhverfisdagar voru fyrst haldnir í firðinum. Íbúar eru hvattir til að hlúa að umhverfinu og er takmarkið að fá snyrtilegra og fegurra umhverfi. Mikilvægt er að íbúar, fyrirtæki og félagasamtök taki höndum saman, tíni rusl og snyrti til í og við lóðir sínar og á nærliggjandi opnum svæðum.

Skemmtilegur áskorandaleikur er hafinn milli fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka þar sem aðilar fara út og tína rusl í kringum sig, setja mynd af sér á samfélagsmiðla og skora á önnur fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök að gera slíkt hið sama. Merkja þarf myndina með myllumerkinu #umhverfisdagar19 og mun sveitarfélagið deila áskorunum á facebooksíðu sveitarfélagsins.

Lögreglan á Norðurlandi vestra lætur ekki sitt eftir liggja og tók áskorun Arion Banka og plokkaði rækilega við lögreglustöðina, kirkjutorgið og kirkjuklaufina á Sauðárkróki.

Lögreglan skorar á Brunavarnir Skagafjarðar að taka við keflinu og plokka upp rusl með brennandi ákafa.