
Í nýafstaðinni kjördæmaviku þingmanna átti ég ýmist einn eða ásamt öðrum þingmönnum Norðausturkjördæmis fundi með sveitarstjórnarfólki og fleirum í kjördæminu. Allt uppbyggilegir og góðir fundir.
Hvert sem komið var á Austur- eða Norðurlandi lögðu heimamenn mikila áherslu á samgöngumálin. Það kemur ekki á óvart enda hefur á undanförnum árum hlaðist upp mikil innviðaskuld í uppbyggingu og viðhaldi vega vítt og breitt um landið þannig að vegir liggja undir skemmdum. Sömuleiðis hefur gangagerð legið niðri í hálfan áratug. Á þessum fundum kom fram mikil bjartsýni á að ný ríkisstjórn láti verkin tala og snúi hratt og örugglega við blaðinu.
Fleiri mál bar á góma til að mynda skattlagning skemmtiferðaskipa, skóla- og heilbrigðismál og auðvitað atvinnumál. Á góðum fundi sem ég boðaði til á Ólafsfirði var að auki rætt um sóknargjöld og uppbyggingu öryggis- og björgunarmiðstöðvar í Fjallabyggð.
Á fundinum á Ólafsfirði var þess minnst að nú eru 15 ár frá vígslu Héðinsfjarðarganga. Þau hafa reynst gríðarlega góð samgöngubót og aukið möguleika Fjallabyggðar á mörgum sviðum til muna. Reynslan af áhrifum ganganna sýnir að samhliða samgöngubótum þarf að fara fram markviss atvinnuppbygging. Byggja verður undir vaxtarbrodda sem fyrir eru í Fjallabyggð meðal annars í fiskeldi, þaravinnslu og ferðaþjónustu.
Það er einnig eðlilegt og sjálfsögð krafa að sjávarbyggðunum sé gert kleift að nýta nálæg fiskimið með vistvænum veiðarfærum.
Sigurjón Þórðarson
Þingmaður Norðausturkjördæmisins
Mynd/Ljósmyndasafn Siglufjarðar