Helstu atriði dagsins í Húnaþingi vestra eru að þær að úrvinnslusóttkví sú sem sett var á hér í Húnaþingi vestra þann 21. mars sl. er felld úr gildi frá og með miðnætti í kvöld 27. mars. Jafnframt munu almennar reglur um samkomubann sem settar voru fyrir landið allt einnig gilda fyrir Húnaþing vestra.
Á mánudaginn fer starfsfólk sveitarfélagsins að vinna eftir þeirri áætlun sem var í gildi áður en úrvinnslusóttkvíin var sett á. Áfram verða þó flestar stofnanir sveitarfélagsins lokaðar fyrir gestum en starfsfólk sinnir störfum sínum líkt og fyrr hefur verið kynnt.
Leikskólinn verður opinn á mánudaginn og fá foreldrar póst þess efnis á morgun þar sem m.a. verður gert grein fyrir hvernig skólastarfi verður háttað á næstu vikum.
Sóttkví hjá nemendum og starfsfólki grunnskólans breytist ekki og stendur til og með 30. mars. Skólastjórnendur verða í sambandi við foreldra um helgina varðandi skólastarf þegar sóttkví lýkur.
Tónlistarskólinn verður lokaður eitthvað áfram en kennarar munu heyra í nemendum í byrjun vikunnar og foreldrar fá póst um hvernig kennslu verði háttað í framhaldinu. Bókasafn og íþróttamiðstöð verða áfram lokuð þar til um annað verður tilkynnt.
Þrátt fyrir að úrvinnslusóttkví sé felld úr gildi er mikilvægt að íbúar gæti almennra sóttvarna og virði þær reglur og viðmið sem gefin hafa verið út af sóttvarnalækni til hins ýtrasta. Allar leiðbeiningar og reglur er að finna á covid.is.
Rétt er að minna á að þeir einstaklingar sem eru í 14 daga sóttkví að tilmælum heilbrigðisyfirvalda búa við óbreytt ástand þar til henni lýkur.
Það hefur verið aðdáunarvert að sjá hve íbúar fóru vel eftir þeim íþyngjandi tilmælum sem fylgdu því að vera í úrvinnslusóttkví. Komið hefur í ljós að það var nauðsynleg aðgerð til að hefta útbreiðslu veirunnar og svo virðist sem við höfum náð árangri, en mikilvægt er að við höldum vöku okkar, slökum ekki á og „ HLÝÐUM VÍÐI“.