Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra  hefur ákveðið að fresta um ótiltekinn tíma breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna lýðgrundaðra skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Kynna þurfi betur áformaðar breytingar og fagleg rök að baki þeim. Ákvörðun um að hækka efri mörk aldursviðmiðanna úr 69 árum í 74 ár stendur óbreytt.

Skimunarráð sem starfar á vegum embættis landlæknis fjallar um fyrirkomulag skimana fyrir krabbameinum á faglegum forsendum og byggir á bestu þekkingu hverju sinni. Það er mat skimunarráðs að breyta skuli aldursviðmiðum brjóstaskimana þannig að skimanir hefjist ekki fyrr en við 50 ára aldur en að efri aldursmörkin hækki úr 69 árum í 74. Tillaga um að hækka lægri aldursviðmiðin var fyrst lögð fram árið 2016 af hálfu embættis landlæknis og aftur á liðnu ári þar sem embætti landlæknis byggði á niðurstöðum skimunarráðs þess efnis.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hvorki hafa forsendur né ástæður til að draga í efa faglegt mat sérfræðinga skimunarráðs eða embættis landlæknis um aldursviðmið krabbameinsskimana. Aftur á móti sé þarna um nokkuð miklar breytingar að ræða varðandi neðri aldursviðmiðin sem skiljanlega veki ýmsar spurningar, ekki síst hjá þeim konum sem eiga í hlut: „Það er alveg ljóst af umræðum síðustu daga að þessa breytingu þarf að kynna betur og því hef ég ákveðið að fresta gildistöku þessarar breytingar varðandi skimun krabbameina í brjóstum“.

Skoða á vef Stjórnarráðsins