Fyrsta leikna barnaefnið fyrir sjónvarp, sem framleitt er af fagfólki búsettu á landsbyggðunum, er á leið í sýningu á N4 sjónvarpsstöðinni. Um er að ræða 12 þátta seríu sem fengið hefur nafnið Himinlifandi. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Þjóðkirkjuna-Biskupsstofu. 

 „Það er spilað á allar tilfinningar í þáttunum, bæði gleði og grátur. Umfjöllunarefnið er byggt á gildum kristinnar trúar og þessum mannlegu spurningar sem við erum öll að velta fyrir okkur, eins og t.d. hvort við eigum alltaf að segja satt, hvað okkur finnst, hvernig við getum tekist á við óöryggi o.fl,” segir Stefán Friðrik Friðriksson, framleiðslu- og markaðsstjóri  á N4. 

Presthjón aðal leikararnir

Það eru hjónin Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson, presthjón á Möðruvöllum, sem fara með aðalhlutverkin í þáttunum en þau sjá einnig um handritsgerðina. Þá skapaði leikmyndahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir hina  ævintýralegu leikmynd sem prýðir þættina en þættirnir voru teknir upp í Hlöðinni við Litla Garð á Akureyri.

Stórar spurningar en líka sprell

Aðalpersónur Himinlifandi eru þau Edda og Abbi sem lifa skrautlegu lífi í koti sínu.  Með aðstoð Ráðavélarinnar takast þau á við stóru spurningunum í lífinu en alltaf er þó stutt í fíflagang og sprell.  

 „Það er ekki framleitt mikið af leiknu íslensku barnaefni hér á landi svo þetta eru töluverð tíðindi. Þetta er eitt af stærstu verkefnunum sem við á N4 höfum tekið að okkur og erum við mjög ánægð með samstarfið við Þjóðkirkjuna og vonum að áhorfendur verði himinlifandi með útkomuna.”

Fyrsti þáttur af Himinlifandi verður frumsýndur á sunnudaginn 2. október kl. 11. 

Stikla:


Myndir:  Sindri Swan