Tekið var fyrir erindi Stefáns H. Steindórssonar, sviðsstjóra Veitu- og tæknisviðs Norðurorku á 817. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar um stöðu vatnsvinnslu hitaveitu á Ólafsfirði. Lagt var til að minnka notkun á upphituðum gangstéttum og íþróttavelli í mikilli kuldatíð og reyna þannig að hlífa öðrum notendum við skerðingum.

Bæjarráð þakkaði bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar fyrir yfirferð á málefnum hitaveitunnar í Ólafsfirði. Bæjarráð ákveður í ljósi þess að gangstéttir eru nú hreinsaðar með kerfisbundnari hætti en áður, og þeirrar staðreyndar að hitaveitan í Ólafsfirði er komin nálægt þolmörkum, að hitun gangstétta á vegum sveitarfélagsins verði hætt þar til annað verður ákveðið. Mikilvægt er að þegar hitun verður hætt að tryggja tæmingu röra þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum.

Bæjarráð telur einsýnt í ljósi stöðunnar að Norðurorka breyti forgangsröðun sinni og flýti framkvæmdum í tengslum við hitaveituna í Ólafsfirði. Mikilvægt er að borun nýrrar holu í Ólafsfirði verði flýtt eins og kostur er. Bæjarstjóra falið að óska eftir fundi með stjórn Norðurorku hið fyrsta.