Úrslit úr matvælasamkeppninni: “Gerum okkur mat úr jarðhitanum” voru kynnt í Hofi fimmtudaginn 15. júní. Að samkeppninni stóðu Eimur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Matarauður Íslands og Íslensk verðbréf. Alls bárust 20 tillögur í samkeppnina um leiðir til að nýta jarðhita við framleiðslu á matvælum og næringarefnum. Hugmyndirnar voru mjög fjölbreyttar, vel unnar og því úr vöndu að ráða fyrir dómnefndina.
Dómnefnd hafði valið fjórar tillögur sem kepptu til úrslita. Hugmyndasmiðirnir komu fram og kynntu tillögurnar fyrir dómnefnd og áhorfendum. Eftir nokkrar bollaleggingar valdi dómnefndin verkefnið: “Rearing Insects on Geothermal Energy- TULCIS – The Insect Farm to Feed the Future” sem þá bestu. Hugmyndasmiðirnir, Torsten Ullrich og Christin Irma Schröder, voru að vonum himinlifandi með sigurinn. Þau hlutu tvær milljónir króna í verðlaun.
Í 2. sæti var hugmyndin: “Ræktun á heitsjávarrækju á Hjalteyri við Eyjafjörð” sem Magnús Þ. Bjarnason og Þorgerður Þorleifsdóttir sendu inn.
Einnig komust í úrslit Jóhanna María Sigmundsdóttir og Sigmundur Hagalín Sigmundsson með hugmyndina: “Fullnýting á íslenskri yl- og útirækt með aðstoð jarðvarma” og Kristín S. Gunnarsdóttir með “Nýting náttúruafurða í Öxarfirði”.
Auk þess mun Nýsköpunarsmiðtöð Íslands bjóða öllum þeim sem sendu inn hugmynd upp á námskeið varðandi þróun viðskiptahugmyndar. Um er að ræða hagnýtt námskeið um rekstur fyrirtækja með áherslu á þróun hugmynda, markaðssetningu, áætlanagerð og fjármál. Þátttakendur vinna sjálfstætt að sínum verkefnum en fá handleiðslu í gegnum allt ferlið.
Dómnefnd skipuðu Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Jón Steindór Árnason frá Íslenskum Verðbréfum, Brynja Laxdal frá Matarauði Íslands og Sæmundur Elíasson frá Matís. Einnig sat Þórir Hrafnsson formaður verkefnastjórnar Matarauðs Íslands í dómnefndinni.
Á meðan dómnefnd réði ráðum sínum kynnti Lilja Kjalarsdóttir starfsemi Keyntaura sem er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í smáþörungum fyrir fæðubóta og lyfjamarkaðinn. Framleiðsluferli byggir á nýtingu vatns- og jarðvarmaorku ásamt hreinu lofti og vatni.
Óklippta úgáfu af viðburðinum er hægt að sjá hér á youtube (dagskráin hefst á 19. mínútu).
Frétt og mynd: Eimur