Á Suðurbraut í Hofsósi er rekin lítil verslun, Ás prjónagallerí með ýmiskonar  handunnum prjónavörum. Eigandinn er Svava Ingimarsdóttir líffræðikennari í hlutastarfi við FNV og selur hún þar bæði eigið handverk og frá öðrum. Samhliða rekstri verslunarinnar rekur Svava einnig íbúðargistingu á efri hæð hússins allan ársins hring. Sjá frekari upplýsingar hér: Ás Holiday Home

Hún hefur hannað og prjónað skemmtilega Íslandshúfu eða svokallaða HM húfu eins og hún er nefnd í daglegu tali. Húfan hefur vakið mikla eftirtekt og rokið út eins og heitar lummur. Svava hefur einnig sett prjónauppskriftina á netið og geta prjónaglaðir nýtt sér það og prjónað húfuna sjálfir. Sjá uppskrift hér: Íslandshúfa

 

Allar vörurnar í Ás prjónagallerí  eru prjónaðar hér á landi og margar hverjar hér á Norðurlandi, lögð er áhersla á fallegt og vandað handverk eins og sést glögglega þegar komið er inn í búðina.

Svava er í samstarfi við Handprjónasambandið og vann við það um skeið að sjá um gæðastarf hjá því. Hún segir að í Ás prjónagallerí geti viðskiptavinir verið öruggir um að fá einungis íslenskt handverk á sanngjörnu verði.

Verslunin er opin frá kl. 12.00 – 18.00 alla daga í sumar. Í Hofsósi er ýmislegt fleira fyrir ferðafólk, þar er fallegt umhverfi, sundlaugin ein sú skemmtilegasta á landinu, safn og veitingastaður.

Sjá Ás prjónagallerí á facebook 

Nýjasta lopapeysan í Ási

 

Svava að afgreiða ánægðan viðskiptavin. Mynd/Kristín Sigurjónsdóttir

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: aðsendar