Reglulega berast Ljóðasetrinu ljóðabókagjafir, stórar sem smáar, og er þeim tekið fagnandi meðan húsrúm leyfir. Á dögunum fékk safnið afhenta sérlega höfðinglega gjöf þegar Auður Adamsdóttir færði setrinu safn eiginmanns hennar heitins, Gunnlaugs V Snævarr.
Í bréfi sem fylgdi gjöfinni segir m.a.: “Á löngum tíma safnaði minn elskaði eiginmaður, Gunnlaugur V Snævarr kennari og lögreglumaður, þessum bókum sem nú hafa fengið nýtt heimili. Gunnlaugur var fæddur í Svarfaðardal 7. apríl 1950 og alinn þar upp. Hann lést í Reykjavík í september 2021. Hann var alinn upp af ljóðelskandi fólki og afar hans beggja vegna, hagyrðingar. Gunnlaugur erfði þessa gáfu frá öfum sínum. Ósjaldan var leitað til Gunnlaugs þegar eitthvað stóð til og vantaði texta eða tækifærisvísur. Hann snéri ófáum textum yfir á íslensku sem sungnir eru og verða vonandi sungnir áfram. Honum var annt um vísur og ljóð og að rétt væri skráð og farið með.”
Í máli Auðar, þegar hún afhenti gjöfina, kom einnig fram að söfnun þessara bóka hefði veitt Gunnlaugi mikla gleði og lífsfyllingu. Hann hefði lagt mikla vinnu í að skrá safnið vandlega og hefði notað bækurnar mikið við störf sín og áhugamál. Annað helsta áhugamál hans var söngur, en hann söng í ýmsum kórum um árabil. Margir leituðu til hans ef spurningar vöknuðu varðandi texta og höfunda þeirra og kom þá safnið að góðum notum.
Í lok bréfs Auðar segir: “Vonandi nýtast þessar bækur sem flestum um ókomin ár, og ég veit að Gunnlaugi hefði þótt gott að vita af þeim á Ljóðasetrinu á Siglufirði.”
Ljóðasetrið þakkar af alhug fyrir þessa góðu gjöf sem sannarlega mun nýtast setrinu vel því þarna leynast ýmsar bækur sem ekki er í hillum okkar.
Forsíðumynd: Auður færir Þórarni, forstöðumanni setursins, hina myndarlegu gjöf sem fyllti 11 kassa.
Mynd/af facebooksíðu Ljóðasetursins