Við hátíðarmessu í Hólaneskirkju á Skagaströnd á aðfangadagskvöld var vígt og tekið í notkun nýtt orgel í kirkjunni. Það var sóknarpresturinn, Bryndís Valbjarnardóttir, sem vígði orgelið og Sigríður Gestsdóttir, fyrir hönd sóknarnefndar, afhenti Hugrúnu Sif Hallgrímsdóttur, organista og kórstjóra, lyklana að nýja orgelinu.
Orgelið er úr ljósri eik af gerðinni AHLBORN ORGANUM III og er þýskt en að mestu leyti framleitt á Ítalíu samkvæmt staðli, BDO, sem eru samtök þýskra orgelsmiða og hefur það hlotið sérstaka viðurkenningu fagaðila.
Orgelið er 57 sjálfstæðar raddir sem deilast á þrjú nótnaborð og fótspil en að auki eru 128 aukaraddir sem hægt er að sækja og skipta út í stað aðalraddanna. Þessi möguleiki eykur fjölbreytni orgelsins mikið. Raddirnar eru teknar upp í stafrænu formi úr góðum pípuorgelum og síðan endurspilaðar aftur í stafrænu formi þegar leikið er á orgelið og þannig næst fallegur pípuorgelhljómur úr orgelinu.
Orgelið kostaði rúmlega 3 milljónir króna og er að fullu greitt með fjórum minningargjöfum sem bárust kirkjunni í desember mánuði. Við athöfnina þakkaði Sóknarnefnd Hólaneskirkju gefendum innilega fyrir höfðinglegar gjafir og þann mikla hlýhug og velvilja sem þau sýna kirkjunni og því starfi sem þar fer fram.