Það er gaman að rifja upp horfin hversdagsleika og sjá t.d. fyrir sér minninga myndir um að hafa í barnæsku skroppið niður á Eyri, til að sækja mjólk í brúsa í Mjólkursamsöluna við Aðalgötu 7. Ég minnist þess vel hvað mér fannst þetta flott, nýstárleg og snyrtileg flísalögð verslun.
Hér voru til sölu allskyns mjólkurafurðir og einnig hafði maður valmöguleikann að kaupa dagsferska Siglfirska Hólsmjólk!
Það hlýtur að hafa verið svolítið óvanalegt að bæjarfélag ræki eigið kúabú í nær fjóra áratugi (1928- 1966) og sé samtímis meðeigandi í Mjólkursamsölu.

Starfsstúlkur Mjólkursamsölu Siglufjarðar: Frá vinstri : Elín Gestsdóttir og Jóhanna Eiríksdóttir. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Forsíðu ljósmyndin sýnir okkur veglegar byggingar sem tilheyrðu Hólsbúinu svokallaða og er hún fengin að láni úr þessari gömlu grein á Sigló.is:
Mynd vikunnar- Hólsbúið, sksiglo.is | Almennt | 14.01.2011| Helga Sigurbjörnsdóttir.
Undirritaður mun hér neðar aðallega notast við sömu heimildir sem Helga notar í sinni samantekt og er þar vísað í texta sem er undirritaður Ó J. Nafn sem ég því miður, veit engin nánari deili á.
Þetta er góð samantekt og lýsir hún vel þeim samgöngum og samfélagslegu aðstæðum, sem ríkja á Íslandi og þá sérstaklega í Siglufirði á síðustu öld. Pistlahöfundur bætir inn á milli við ljósmyndum og ýmsum eigin minningum og áhugaverðum MJÓLKUR upplýsingum…
Hólskúabú og Mjólkursamsala Siglufjarðar
“Hugmyndin að stofnun kúabúsins mun fyrst og fremst hafa komið fram vegna þeirra örðugleika sem á því voru að tryggja bæjarbúum næga neyslumjólk allt árið.
Eins og gefur að skilja hefur það tíðum verið miklum annmörkum háð yfir vetrarmánuðina að flytja mjólk til bæjarins, þó að flóabátur væri í ferðum milli Akureyrar og Siglufjarðar og til Sauðárkróks og hafi fært Siglfirðingum margan mjólkursopann.”

“Það mun fyrst hafa verið í janúar 1925 að bæjarstjórn Siglufjarðar kaus þriggja manna nefnd til þess að finna leiðir til þess að bæta úr mjólkurvandræðum bæjarbúa. Í nefndina voru kosnir : Hinrik Thorarensen læknir, Sigurður Kristjánsson og Flóvent Jóhannsson.”

Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
“Þetta var upphaf þess, að farið var að ræða um stofnun kúabúsins og árið 1928 tók Hólsbúið til starfa. Í maí mánuði það ár gerði bæjarstjórn þá samþykkt að frá þeim tíma sem mjólkursala frá mjólkurbúi Siglufjarðar kaupstaðar hæfist, yrði öll mjólk er kaupa þyrfti til fyrirtækja bæjarins og spítalans eingöngu keypt þar. “
“Í tengslum við Hólsbúið var síðan rekin mjólkursölubúð á Siglufirði, Mjólkursamsalan, og einnig seldi hún alls konar afurðir frá búinu og eins frá Akureyri. Enn fremur brauð, öl og fleira og urðu af þessu nokkrar aukatekjur. Hólsbúið var þó fyrst og fremst stofnað og starfrækt sem þjónustu fyrirtæki bæjarbúa.”
ATH. Smelltu á mynd og hún mun þá birtast í fullri stærð.

Gamla MJÓLKURSAMSALAN á horni Aðalgötu og Vetrarbrautar. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Sömu hús, Bakhlið, við skúrinn er stór stafli af mjólkurbrúsum.
Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sem sagt, Mjólkursamsala Siglufjarðar, flutti bara þvert yfir götuna á næsta götuhorn.

Myndir frá opnun Mjólkursamsölu Siglufjarðar, starfsstúlkurnar tvær eru umkringdar af virðulegum stjórnar karlmönnum, líklega bæjar-, kaupfélags- og mjólkursamsölu stjórnarmenn.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér þá í fullri stærð.



búðarkassi og
afgreiðsludömur Mjólkursamsölunnar.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Mjólkursamsölu og bakarís útibú!
(Viðbótar upplýsingar frá pistlahöfundi)


Óhætt er að segja að Mjólkursamsala Siglufjarðar með sínar höfuðstöðvar við Aðalgötuna, bauð upp á góða þjónustu, með sín tvö útibú í bæði Suður- og Norðurbæ og þar voru einnig til sölu brauð og kökur frá Kaupfélagsbakaríinu við Hvanneyrarbraut.
Ég minnist þess sérstaklega þegar ég sleit barnaskónum uppi á Hverfisgötu 27, að stundum fékk maður aur frá ömmu Nunnu eða Langömmu Jónu Möller og svo skrapp maður í Mjólkurbúðina og keypti sér risastóran nýbakaðan súkkulaði snúð. Starfsstúlkan á þessum tíma hét “VINA” og var hún alltaf svo vinaleg og góð við mig og alla krakkana í hverfinu.
Það má einnig til gamans geta að um tíma voru rekin þrjú bakarí samtímis heima á Sigló.

Sjá meira hér: Hver man ekki eftir Kaupfélagsbakaríinu?
“En Hóls búreksturinn var bæjarsjóði aldrei nein auðspretta, þvert á móti varð jafnan halli á honum, enda þurfti mikið að leggja í kostnað, fyrst til kaupa á bústofninum og síðar í sambandi við húsabætur og jarðrækt.”
“Í upphafi var kúastofninn all sundurleitur og kýrnar mismunandi arðsamar. Margir bæjarmenn seldu búinu gripi sína, sömuleiðis bændur við fjörðinn, sem um þetta leyti voru að bregða búi, en flestar af kúnum voru keyptar innan úr Skagafirði.“
“Á búinu voru um skeið allt að 100 gripir.”
Skondnar viðbætur og furðuleg Aðalgötu ljósmynd: Á þessum tíma eru allskyns nytja og gæludýr með búsetu í bakhúsum út um allan bæ.

Í sænskum texta sem fylgdi með þessari ljósmynd segir: (Það hefur örugglega hvergi í víðri veröld sést jafn margt fólk frá jafn mörgum síldarþjóðum og hér á þessari götu. Á miðri götunni er belja að spóka sig. Það er samt ekki sú belja sem sjómennirnir hafa mest gaman af. Það er til önnur kú, sem með gleði þiggur vindla og sígarettur sem hún tyggur eins og hey.)
ATH. (Það var reyndar geit en ekki kú,, sem varð fræg fyrir að éta sígarettur og drekka brennivín heima á Sigló) Segir í heimildum frá Siglfirska sögumanninum Örlygi Kristfinns.
“Á því tímabili sem Hólsbúið var starfrækt var mikil ræktun á jörðinni, ekki síst hin síðari ár og munu túnin hafa gefið af sér í góðu árferði allt að 3000 hesta af töðu.
Þá var árið 1960 byggt nýtt íbúðarhús fyrir bústjóra og starfsfólk.”


Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.


“Bærinn hætti rekstri Hólsbúsins árið 1966 og stuttu seinna voru íþróttahreyfingunni á Siglufirði afhent þessi hús til umráða ásamt tilteknu landsvæði.”
“Hólsmjólkin var alltaf eftirsóttari en brúsamjólkin sem flutt var frá Akureyri og Sauðárkróki.”

Sjá meira hér:
SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 HLUTI. 65 MYNDIR
“En markaðurinn fyrir Hólsmjólkina hrundi svo að segja á einum degi…
… Þegar gerilsneydd og fitusprengd mjólk tók að flytjast frá Akureyri, fyrst á flöskum og síðar á fernum og einnig um sama leyti kom gerilsneydd pokamjólk frá Sauðárkróki. “
“Var því búskapnum á Hóli sjálfhætt.
Allmörg undanfarin ár hafa Siglfirðingar fengið allar venjulegar mjólkurvörur frá Akureyri og má því litlar líkur telja á því að aftur verði hafinn búskapur á Hóli eða öðrum jörðum í Siglufirði og er þar með liðinn undir lok, landbúnaður á hinum fornu býlum við fjörðinn. Ó. J.”
Innskot frá pistahöfundi:
Mér eldri Siglfirðingar sem minnast vel ofan nefndu mjólkurvinnslu nýjunga, varðandi t.d. umbúðir og þá sérstaklega þegar kemur að fitusprengingu vinnslu á mjólkinni. Hér fannst mörgu að það væri verið að eyðileggja blessuðu mjólkina. Þetta ferli er samt aðallega notað til að auka hollustu og geymsluþol.
Sjá meira hér á : MS.is. Mjólkur spurningar og svör.
Ýmsar mjólkurminningar!
Mjólk er góður og hollur drykkur og var hún seld og auglýst út um allan bæ í allskonar umbúðum.
Þegar kemur að mjólkur drykkju fullorðinna á heimsvísu, þá er sagt að það séu Svíar og Finnar sem drekka mest og þar á eftir koma Íslendingar. Sjálfur drekk ég rúmlega 1 L á dag.

Ljósmyndari óþekktur.

Ljósmyndari: Margrét Steingrímsdóttir.

Margir muna eflaust eftir að þessi píramída mjólkurferna var bara til vandræða. Maður klippti gat á eitt hornið og eftir það var ómögulegt að halda í fernuna með annarri hendinni. Það var bara tveggja handa grip sem dugði til að hella í mjólkurglas. Það var mikið kvarta yfir þessu, mun meira en nútíma kvartanir yfir á föstum plast töppum.
Sjá meira hér og fleiri ljósmyndir af gömlum sænskum mjólkurumbúðum:
Älskade mjölk! Här är mjölkpaketen vi minns från barndomen! (Land.se)
ATH. Matvöru umbúða fyrirtækið Tetra Pak er upprunalega sænskt fyrirtæki. Sjá meira hér í stuttum texta og myndbandi um: Ruben Rausing, grundare av Tetra Pak (enska)
Sjá einnig meira hér á MS.is: Brot úr mjólkursögu.
Lokaorð:
Siglufjörður 1963

Höfundur samantektar
og stafræn endurvinnsla á ljósmynda gæðum:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.