Ég ólst upp við að áin héti Hólsá, en komst svo að því löngu síðar að hún héti Fjarðará. Enn síðar sá ég að hún gat heitið bæði Hólsá og Fjarðará og var þá annað nafnið oft ritað á undan og hitt inni í sviga á eftir til að allir áttuðu sig nú alveg örugglega á því hvaða á væri átt við. Á þeirri ágætu og fræðandi síðu snókur.is má sjá ána merkta inn á myndir á ýmsa lund, þar á meðal bæði Hólsá (Fjarðará) og Fjarðará (Hólsá).
Í færslu á vef Fjallabyggðar frá júlí 2012 segir: Komið hefur verið upp veiðibók fyrir Hólsá í Siglufirði, öðru nafni Fjarðará…
Ég er einn þeirra sem hallast meira af Hólsár nafninu, enda tók ég það inn í vitundina á þeim árunum þegar ég var hvað móttækilegastur og þar við situr oftast nær enn í dag.
Datt í hug annað skrýtið en svolítið sambærilegt mál af svipuðum slóðum, en á öldum áður eru einhverjar sagnir til um að Skútudalur hafi borið það nafn aðeins austan megin árinnar, en vestan megin hafi hann heitið Saurbæjardalur.
En hvort heitir áin Hólsá eða Fjarðará?
Eða heitir hún kannski báðum nöfnunum?
Höf. Leó Ólason
Myndir: Leó Ólason