Fyrirtækið Hopp hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, afhenti Vaxtarsprotann í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal í morgun. 

Hopp er sprotafyrirtæki sem þróar hugbúnað sem gerir framtakssömu fólki kleift að opna Hopp útibú með sérleyfi (e. franchise) á sínum heimaslóðum. Í dag eru virk sérleyfi Hopp í 56 bæjum í 12 löndum. Hopp á engar rafskútur en sjálfstæð fyrirtæki eru rekin undir heiti Hopp í hverju bæjarfélagi. Fyrirtækin gera samninga við Hopp um rekstur á hugbúnaði og þjónustu vegna hans. Hopp er nú þegar skráð vörumerki í fjölmörgum löndum og meirihluti tekna fyrirtækisins eru útflutningstekjur. Starfsmenn eru 13 talsins. Velta fyrirtækisins jókst um 970% á milli áranna 2021 og 2022 þegar veltan fór úr 72 milljónum króna í 770 milljónir króna. 

Tvö önnur fyrirtæki, Dohop og Lauf Forks, hlutu einnig viðurkenningar.

Dohop hlaut viðurkenningu fyrir góðan vöxt í flokki fyrirtækja með 100-1000 milljónir króna í veltu fyrra árs. Velta fyrirtækisins jókst um 265% á milli ára, fór úr 300 milljónum króna í 1,1 milljarð króna milli 2021 og 2022. Auk þess hlaut Dohop viðurkenningu fyrir að ná í fyrsta sinn veltu yfir 1 milljarð á árinu 2022. Dohop er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur með flugfélögum og býr til bókunarkerfi fyrir þau með áherslu á tengiflug ásamt því að þjónusta tengifarþega sem missa af flugi. Dohop starfar með um 70 flugfélögum um allan heim. Allar tekjur félagsins koma erlendis frá. 

Lauf Forks hlaut viðurkenningu fyrir að ná veltu í fyrsta skipti yfir 1 milljarði króna á síðasta ári en fyrirtækið fór úr 924 milljóna króna veltu árið 2021 í 1,4 milljarða króna veltu árið 2022. Lauf Forks þróar og framleiðir einstaka hjólagaffla og fjöðrun fyrir fjallahjól. Sérstaða vöru fyrirtækisins er byggð á þekkingu sem upprunalega varð til í rannsóknum og þróun hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri. Afurðin, hjólagafflarnir, breyta virkni fjallahjóla, en fremstu aðilar í hjólreiðum eru farnir að nýta sér vörur Lauf Forks til að ná meiri árangri, ánægju og upplifun út úr hreyfingunni og íþróttinni.  

Frá afhendingu Vaxtarsprotans í Grasagarðinum í Laugardal. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI, Ægir Þorsteinsson meðstofnandi Hopp, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Hopp, Hildur Hjaltalín Jónsdóttir rekstrarstjóri Hopp, Eiríkur Nilson meðstofnandi Hopp og Árni Sigurjónsson formaður SI.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Þetta er í 17. sinn sem Vaxtarsproti ársins er afhentur en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Í dómnefnd voru Katrín Sif Oddgeirsdóttir fyrir Háskólann í Reykjavík, Svandís Unnur Sigurðardóttir fyrir Rannís, Kolbrún Hrafnkelsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Nanna Elísa Jakobsdóttir fyrir Samtök iðnaðarins. 

Myndir/BIG 

Forsíðumynd/ Frá afhendingu Vaxtarsprotans í Grasagarðinum í Laugardal. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Katrín Sif Oddgeirsdóttir verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá HR, Eiríkur Nilson meðstofnandi Hopp, Ágúst Hjörtur Ingþórsson forstöðumaður Rannís, Katrín Atladóttir vörustjóri Dohop, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI, Ingunn Tryggvadóttir vörustjóri Dohop, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyþór Máni Steinarsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Hopp, Árni Sigurjónsson formaður SI, Hildur Hjaltalín Jónsdóttir rekstrarstjóri Hopp, Kolbrún Hrafnkelsdóttir stofnandi Florealis og í stjórn Samtaka sprotafyrirtækja, Ægir Þorsteinsson meðstofnandi Hopp, Nanna Elísa Jakobsdóttir viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Hallgrímur Björnsson fjármálastjóri Lauf Forks og Svandís Unnur Sigurðardóttir, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís