Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri er fæddur 17. júní 1948 og varð því 74 ára þann 17. júní síðastliðinn.

Þegar hann var barn rann þjóðhátíðardagurinn og afmælisdagurinn saman í eitt og hann hélt að allir veifuðu fána og blöðru í bænum hans vegna. „Á þessari gullöld í lífi mínu hélt ég að þjóðin liti svo á að það væri full ástæða til að grípa til hátíðahalda þegar ég ætti afmæli. Ég lifði þessa gullöld misskilningsins talsvert lengi. Það hefur líklega ekki verið fyrr en ég var sex eða sjö ára sem ég sá ljósið. Atvikið líður mér aldrei úr minni, ég man það í smáatriðum.“

Hrafn með yngsta syninum, Antoni Ariel, við skólalok nú í vor.

Hrafn segist hafa verið með föður sínum spariklæddur í miðbænum þennan örlagaríka dag. „Við marséruðum út á Austurvöll og fylgdumst með öllum herlegheitunum saman. Og sem við stöndum þar og horfum á Alþingishúsið, þá opnast dyrnar á efri hæðinni og mamma, Herdís Þorvaldsdóttir leikkona, stígur út á svalirnar klædd fjallkonubúningnum og fer með kvæði. Mér fannst þetta allt mjög við hæfi. Ég var mjög sáttur við þennan gjörning. Svo þegar mamma er búin að flytja kvæðið, forsetinn að flytja ávarp, mannfjöldinn að klappa, þá bankar pabbi á öxlina á mér og segir: „Sjáðu, Hrafn, hérna fyrir aftan þig.“ Og þegar ég sný mér við birtist frelsishetja Íslendinga fyrir fullum seglum fyrir framan mig.“ Pabbi segir: „Það er af því að þessi maður á afmæli í dag sem þetta heitir þjóðhátíðardagur.“ Það þyrmdi auðvitað yfir mig og ég var dálitla stund að taka þetta inn. Mér gæti hafa hvarflað í hug að einhvern tíma skyldi ég jafna metin. En síðan þetta gerðist hefur afmælið mitt eiginlega aldrei verið eins.“

Hrafn segist lengi hafa hugsað Jóni Sigurðssyni þegjandi þörfina en lært að taka hann í sátt með árunum. „Þetta sýnir manni auðvitað hvað heimur æskunnar er stórkostlegur, áður en maður er sviptur öllum blekkingum bernskunnar.“

En hvaða augum lítur Hrafn þjóðhátíðardaginn nú og hátíðahöldin? „Þjóðhátíðardagurinn er ekki alveg á réttum árstíma. Það er oft svo kalt og grátt 17. júní. Það er svo sjaldgæft að hann beri upp á fallegan, sólríkan dag. Það er auðvitað sjálfsagt að minnast Jóns Sigurðssonar með einhverjum hætti, en kannski ætti þjóðhátíðin sjálf að vera seinna um sumarið, t.d. á menningarnótt.“

Íslendingar kunna ekki að gleðjast

Hrafn segir að Íslendingar kunni ekki að gleðjast og það birtist ekki síst þjóðhátíðardaginn. „Sem hátíðisdagur finnst mér 17. júní hafa horfið að miklu leyti. Það er kannski vegna þess að það vantar alla gleði. Við Íslendingar kunnum ekki alveg að gleðjast. Það er engin tónlist í okkar menningu raunverulega. Á Kúbu er þetta með allt öðrum hætti, það er svo mikill dans og gleði hjá þeim á hátíðisdögum, einhver alegría sem við höfum ekki, og þetta er það sem ber svona hátíðir uppi þar í landi, söngur, dans og gleði, og þó að þeir séu blankir og eigi ekki neitt, þá kunna þeir sannarlega að gera sér glaðan dag. Jafnvel þótt þeir hafi engin hljóðfæri til að leika á, þá breytir það engu. Við erum bara á kafi í jólakökum og randalíni, kunnum ekki að búa til stuð. Þetta virðist bara vera hluti af okkar menningu, dumbungurinn.“


Greinina má lesa í heild sinni á lifdununa.is