Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur verið falið að taka við rekstri hjúkrunarheimilisins Hornbrekku á Ólafsfirði í Fjallabyggð, í kjölfar uppsagnar Fjallabyggðar á samningi um rekstur heimilisins. Áætlað er að HSN taki við rekstrinum í síðasta lagi 1. apríl 2026.
Á Hornbrekku eru 22 dvalar- og hjúkrunarrými. Þar eru um 28 stöðugildi en fastir starfsmenn eru 38 auk þess sem 16 starfsmenn sinna afleysingum í ýmsum störfum tengdum rekstri stofnunarinnar. Starfsfólki verður boðin áframhaldandi vinna hjá HSN.

„Með yfirfærslu rekstarins til HSN verður starfsemi hjúkrunarheimilisins tryggð og frekari þróun á starfseminni í tengslum við heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Búast má við faglegri samlegð með yfirfærslu hjúkrunarheimilisins yfir til HSN, en starfsfólk Hornbrekku mun fá aðgang að upplýsinga- og gæðakerfum HSN ásamt tækifærum til öflugrar fag- og endurmenntunar. Við hlökkum til að bjóða nýtt starfsfólk velkomið í starfsmannahóp HSN“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.
Hornbrekka mun stjórnunarlega falla undir einingu innan HSN sem hefur borið ábyrgð á sjúkrahúsinu á Siglufirði og heilsugæslunni á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. HSN rekur rúmlega 200 hjúkrunar- og sjúkrarými á Norðurlandi þ.m.t. á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík. Fellur starfsemi Hornbrekku því vel að starfsemi stofnunarinnar.




