Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur verið falið að taka við rekstri hjúkrunarheimilisins Hornbrekku á Ólafsfirði í Fjallabyggð, í kjölfar uppsagnar Fjallabyggðar á samningi um rekstur heimilisins. Áætlað er að HSN taki við rekstrinum í síðasta lagi 1. apríl 2026.

Á Hornbrekku eru 22 dvalar- og hjúkrunarrými. Þar eru um 28 stöðugildi en fastir starfsmenn eru 38 auk þess sem 16 starfsmenn sinna afleysingum í ýmsum störfum tengdum rekstri stofnunarinnar. Starfsfólki verður boðin áframhaldandi vinna hjá HSN.  

Efri röð frá vinstri Þórhallur Harðarson HSN og Sunna Eir Haraldsdóttir Hornbrekku. Neðri röð frá vinstri Birkir Örn Stefánsson HSN, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Fjallabyggð og Jón Helgi Björnsson HSN. Mynd/HSN

„Með yfirfærslu rekstarins til HSN verður starfsemi hjúkrunarheimilisins tryggð  og frekari þróun á starfseminni í tengslum við heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Búast má við faglegri samlegð með yfirfærslu hjúkrunarheimilisins yfir til HSN, en starfsfólk Hornbrekku mun fá aðgang að upplýsinga- og gæðakerfum HSN ásamt tækifærum til öflugrar fag- og endurmenntunar.  Við hlökkum til að bjóða nýtt starfsfólk velkomið í starfsmannahóp HSN“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.

Hornbrekka mun stjórnunarlega falla undir einingu innan HSN sem hefur borið ábyrgð á sjúkrahúsinu á Siglufirði og heilsugæslunni á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. HSN rekur rúmlega 200 hjúkrunar- og sjúkrarými á Norðurlandi þ.m.t. á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík. Fellur starfsemi Hornbrekku því vel að starfsemi stofnunarinnar.