Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.
Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).
Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.
Hurðarhúnar
Hvanneyrarbraut 62, fjórar íbúðir uppi og ein í kjallara. Allar hurðirnar á íbúðunum upp opnuðust innávið og hurðin til vinstri opnaðist til hægri, hurðin til hægri opnaðist til vinstri. Hurðarhúnarnir voru, og eru kannski enn, með svörtu handfangi.
Ég segi svona frá af því það skiptir máli.
Einu sinni sem oftar vorum við strákarnir í númer 62 að bralla, sátum í stigaganginum og leituðum ráða í hvers annars huga.
Ég man að við ræddum um það, en er ekki viss um að við létum verða af framkvæmdum. En samt man ég það eins og það hafi gerst.
Við höfðum undirbúið okkur og eitt kvöldið bundum við snæri um hurðarhúnana frá hægri til vinstri, eða öfugt, þannig að það var ekki hægt að opna dyrnar þegar fólkið fór til vinnu eldsnemma. Ég átti heima í kjallaranum og þar var ekki hægt að binda hurðina fasta. En efst uppi, til vinstri, átti Víðir heima og á miðhæðinni til hægri átt Nonni heima. Þeir voru með í þessu og þurftu auðvitað að komast inn til sín. Ekki man ég eftir að ég hafi staðið í því einn að binda saman hurðarhúnana, svo líklega eru þetta bara hugarórar.
En hitt er satt að við náðum okkur í svarta skósvertu og smurðum vel á svarta hurðarhúnana á öllum íbúðunum. Fullorðna fólkið skildi ekkert í því hvers konar vitleysa væri í gangi, allir urðu svartir á höndunum – fussum svei. Við strákarnir skildum heldur ekkert í þessari vitleysu, þetta hlutu að vera einhverjir pörupiltar úr Villimannahverfinu að verki.
Mynd af börnum við verkamannabústaðinn/Einar M. Albertsson