Svifryk eru smágerðar agnir sem svífa um í andrúmsloftinu. Umferð og uppþyrlun göturyks eru meðal helstu uppspretta svifryks í þéttbýli. Áhrif á heilsu fólks eru að miklu leyti háð stærð agnanna. Fínustu agnir geta auðveldlega komist niður í lungu og stuðlað að og ýft upp öndunarfærasjúkdóma. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmasti hópurinn.
Á vef Akureyrarbæjar og í Akureyrarbæjar-appinu er hægt að fylgjast með styrk svifryks. Bæjarbúar eru eindregið hvattir til að prófa appið en það er hægt að sækja bæði í gegnum Appstore og Google Play.
Hér eru nokkrar ráðstafanir sem hægt er að grípa til þegar svifryk er mikið.
Minni bílaumferð: Það er frítt í strætó á Akureyri og því um að gera að nýta sér almenningssamgöngur. Einnig er gott ráð að sameinast í bíla, hjóla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.
Takmarka útiveru: Sérstaklega börn, eldri borgarar og einstaklingar með öndunarfæra- eða hjartasjúkdóma ættu að halda sig innandyra þegar styrkur svifryks er yfir mörkum.
Halda gluggum lokuðum: Þetta kemur í veg fyrir að ryk berist inn í húsnæði.
Nota grímur utandyra: Andlitsgríma, sem síar fínt ryk, gæti hjálpað ef nauðsynlegt er að vera úti.
Takmarka notkun nagladekkja: Nagladekk stuðla að svifryki, og notkun þeirra ætti að vera í lágmarki – ef aðstæður leyfa.
Mynd/Akureyrarbær