Gott er að hafa í huga hvað græn, gul, appelsínugul og rauð aðvörun táknar frá Veðurstofu Íslands í ljósi veðurspáa næstu daga.

Björgunarsveitin Dalvík segir á facebook síðu sinni að veðurspá bendi til að veður fari ört versnandi við utanverðan Eyjafjörð á milli 07:00 og 10:00 að morgni þriðjudags 10. des. Búast má við blindstórhríð fram á morgunn miðvikudags 11. des. Björgunarsveitin vill einnig vekja sérstaka athygli á viðvörunum sem eru í gildi fyrir Tröllaskagasvæðið

Rauð viðvörun: Í gildi frá miðjum Tröllaskaga og vestur á Strandir (t.d. Héðinsfjörður og Siglufjörður). Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.

Appelsínugul viðvörun: Gildir á Dalvík og Eyjafirði öllum.
Norðaustan og síðan norðan rok (23 til 30 m/s) með talsverðri eða mikilli snjókomu eða skafrenningi, einkum við utanverðan Eyjafjörð og á Öxnadalsheiði. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.

Af fenginni reynslu, teljum við miklar líkur á að færð milli byggðarlaga spillist fljótt og að í Ólafsfjarðarmúla geti skapast snjóflóðahætta, en Vegagerðin mun gefa út tilkynningar um slíkt (www.vegagerdin.is). Einnig eru miklar líkur á að færð spillist innanbæjar í þéttbýlum Dalvíkurbyggðar þegar líður á þriðjudaginn.