Ég sat einsamall, í þungum sjómannakvæða texta þönkum, yfir kaffi og kleinu á Kaffivagninum í Reykjavík, á milli jóla og nýárs og þá birtist hann, bara rétt sí svona, minn gamli góði æskuvinur. Núverandi stoltur öryrki og fyrrverandi alvöru sjómaður frá Sigló. Ég sat dágóða stund og dáðist að honum úr fjarlægð áður en ég gaf mig til kynna. Nokkrir túristar stálust til að taka myndir og hvísluðu sín á milli, eitthvað um að vinur minn minnti þá á karakter úr Game of Thrones.

Ég náði einnig að hugsa, sem sá Wannabe… sjómaður sem ég hef alltaf verið. Já, ef þið bara vissuð þvílíka góðmennsku gæðasál sem þessi kröftugi maður hefur að geyma. Enginn getur heldur séð utan á honum, hversu líkamlega slitin og slasaður hann er í rauninni, eftir áratuga sjómennsku.

Hmm… það er örugglega praktískt fyrir sjómann að vera svona… frekar stuttur og samanrekinn þrekinn drumbur, með brúarstólpa þykk læri og kálfa. Lágur og stöðugur þyngdarpunktur, gefur manni örugglega betri fótfestu á veltandi bátsdekkinu. Sá einnig að hann hafði bætt við húðflúri á sinn sköllótta haus, hendur og kálfa. Fléttaða gráa hökuskeggið var líka lengra, en þegar við sáumst síðast.

Áður en ég tók skrefin úr jólaleyfis nístings kuldanum og inn í Kaffivagns hlýjuna, gekk ég um bryggjur og dáðist að fallegum gömlum bátum og skipum. Ég bar í mér mikla uppsafnaða þörf, fyrir að sjá haf og báta, því svoleiðis augnayndis myndir draga mig niður á jörðina, veita mér ró í huga og fá mig til að minnast góðar stunda úr Sigló barnæsku. Frá þeim tíma, þar sem ég varð nokkur sælusumur, alvöru sjómaður, sem smágutti á skakinu með afa á litla sæta trilluhorninu hans.

Þar fyrir utan, varð ég bara að taka smá pásu frá jólaboða hávaðanum, sem fylgdi börnum og barnabörnum elskulegs bróður míns, sem hann hafði safnað að sér í áratugi og búið til með fjórum fyrrverandi eiginkonum.

En vegurinn að heiman, er ekki endilega vegurinn heim

Þegar ég stóð úti í kuldanum á bryggjuendanum, neðan við Kaffivagninn, sá ég að Reykjavíkur sjóndeildarhringurinn hafði breyst mikið, síðan ég og mín fyrsta barnsmóðir og sambúðarfrú fluttum á svæðið haustið 1981. Húsið þar sem við leigðum litla krúttlega risíbúð, undir lekandi þaksúð við Mýrargötuna, beint fyrir ofan þá hávaðasama Slippstöðina, var vissulega horfið og annað í svipuðum stíl komið í staðin.

Hérna byrjaði minn háskóla-mennta-vegur og hann fór með mig út um allan heim, en leiddi mig sjaldan heim til Siglufjarðar. Mér varð nú ákaft hugsað til þess, að eftir að síldin hvarf endanlega úr minni barnæsku 1968, byrjaði allt og ekkert í mínum ástkæru heimahögum að fara bara niður á við. Margir Siglfirskir ungir foreldrar í atvinnuleit, tóku með sér barnæskuvini mína. Þeir fluttu frá mér og skildu mig og aðra eftir í sárri sorg. Þetta skapaði í mér mikla aðskilnaðar angist, sem ég ber í mér enn í dag.

Á lokaárum grunnskólanámsins, varð Það mér ljóst, sem og mörgum, sem ólust upp í draugalegu umhverfi, á og í rotnandi og grotnandi síldarára bryggjum, brökkum og verksmiðjum, að það voru bara til tvær leiðir út úr föðurhúsum.

Nostalgíu hugsanir og heimþrá

Maður gat farið að heiman og ekið menntaveginn… úr bænum!
Eða flutt stuttu staðbundnu sjóvinnu leiðina, inn í eigið fullorðinslíf.

Ég dregst nú inn í margar aðskilnaðar minningar um að helmingurinn af mínum eigin góða og samheldna 1962 grunnskóla árgangi fóru, eins og ég í menntaskóla heimavist. Ég varð þar á eftir, 17 vetra Sigló sumar vinnu strákur. Rétt eins og svo margir af mínum áður brottfluttu barnæskuvinum, sem komu heim á Sigló, svo lengi sem þeir nenntu að heimsækja afa sinn og ömmu í firðinum fagra.

Efasemdir um að eiga aldrei aftur heimakvæmt og áköf heimþrá nagaði mig öll menntaskólaárin, var ég að velja mér réttan veg út í lífið?
Var ekki gamla unglingsára kærastan mín hamingjusamari en vesalings ég…
Þessi elska varð þriggja barna móðir, rétt tæplega tvítug og alltaf var hún jafn ástfangin og ánægð með sínum sjómanna skólabróðir. Þau voru nýbyrjuð á að byggja sér og sínum stórt og mikið einbýlishús, vorið sem ég fékk stúdentsprófið staðfest á pappír og gæða stimpil á minn auma Sigló rass…

Dugir kannski, til að ganga óstuddur hinn gullna menntaveg!

Ég gerði mér ekki grein fyrir því, að það var mest glópagull á þessu gullna vegi, því hér byrjaði ég að safnaða… áratuga afborgunum af verðtryggðum námslánum.

Í sumarvinnu í síldar gaffalbita verksmiðjunni Siglósíld, þetta sama stúdentsprófs sumar, hrópuðu yfir tveggja metra löngu gárunga bræðurnir í síldrar sósugerðinni :

Já, nægar hefurðu gáfurnar og í háskólann skaltu helvítið þitt… eða beint í sósuna... ” en ég var akkúrat þá, svo óöruggur í mínum menntavegs og líf krossgötu valmöguleikum, að ég gat alveg séð sjálfan mig, vinnandi sæll og glaður í vellyktandi og kryddaðri framtíð.

Í síldardósa sósugerð, heima á Sigló.

Já, en engin veit samt, hvað bíður manns í lífsins ólgusjó

… og yfirleitt verður lífið ekki eins og maður sá það fyrir sér í dagdraumum á unglingsárunum.

Hugsaði ég og tók af mér vettlingana og sendi fyrrverandi númer eitt, nokkrar nostalgískar ljósmyndir, gegnum Messenger. Samtímis var ég fastur í þessum “Í lífsins ólgusjó” sjómannakvæða orðum og byrjaði að Googla þetta og ég varð hissa, þegar ég sá það var sjálfur Laxness, sem setti saman þessi fleygu orð:

Þú varst alinn upp á trosi
í lífsins ólgusjó,
síðan varstu lengi á opnum bát
í lífsins ólgusjó.
og þjóraðir brennivín í landlegum
í lífsins ólgusjó.
Með tímanum urðum við fylliraftar
í lífsins ólgusjó.

Seinna fórstu á skútu
í lífsins ólgu sjó,
og þú varst mesti helvítis klámkjaftur
í lífsins ólgusjó,
og þú varst andskotans slagsmálahundur
í lífsins ólgusjó,
þér hefði svei mér verið nær að gifta þig

Margt kvöldið hefurðu setið að sumbli
með sigurbros á vör,
og hnigið síðan undir borðið
með sigurbros á vör.
Og nú ertu loksins alveg dauður
með sigurbros á vör,
og bráðum er ég hið sama
með sigurbros á vör.


(Lag / texti: Hörður Torfason / Halldór Laxness)
(Texti fengin að láni frá Glatkistan.com)

“Fan va kallt det ãr…” heyrði ég sjálfan mig segja upphátt á sænsku, þegar ég var að reyna að lesa þessi hnitmiðuðu gömlu sjómanna vísu orð, gleraugnalaus út á bryggju. Gafst svo fljótlega upp og kom við í bílnum og náði í virðuleg, eldri manna lesgleraugu og settist inn á gamla góða Kaffivagninn og þar hafði hvorki sjómannalegt andrúmsloftið eða útlitið breyst mikið frá því að ég kom hingað fyrst, á mínum fyrstu menntavegs árum.

Að fráskildum einstaka nútímalega klæddum túristum, með myndavélar á maganum, var allt sér líkt og þegar ég var þarna tíður gestur á síðustu öld. Sem sagt, góð blanda af venjulegu vinnandi fólki, há fleygum misskildum listamönnum og bóhemum. Þarna átti ég einnig oft óvænt og skemmtileg samtöl við einn og annan átthaga munaðarlausan sjómann, frá Siglufirði og Vestmannaeyjum. Kaffivagninn, var og virðist mér enn vera staðurinn, þar sem bæði stórborgarar og aðfluttir Molbúar, eru til í að spjalla við ókunnuga.

Ég var einmitt í djúpum hugleiðingum um hvað mér fannst þessi vísu orð, passa vel við mitt eigið Bakkusar blauta ólgusjávar líf, sem og marga af mínum gömlu sjóara vinum, þegar einn slíkur, fyrir guðdómlega tilviljun, klífur inn úr nístings kuldanum inn í hitann í Kaffivagninum úti á Granda, rétt á eftir mér.

Hann var í stuttbuxum og stuttermabol með auglýsingu frá síðustu tónleikum hard rock hljómsveitarinnar Skálmöld. Svona alvöru karla karlmönnum, er greinilega aldrei kalt, náði landkrabbinn ég, að hugsa, áður en hann spurði:

Hvenær komstu til landsins?
Aðfaranótt annan dag jóla, þetta var ömurleg ferðalag, fluginu frestað þrisvar sama dag…. brjálað veður hér á skerinu.

Hvað, komstu einn?
Já svaraði hann og við vorum greinilega að hugsa það sama, því hann var líka að flýja um stundarsakir, kaþólskan jólagleði hávaða, frá eigin og annarra manna börnum. Þetta blessaða jóla basl er alltaf jafn gaman, en verður flóknara með hverju ári, því nú var hann komin í sambúð með yndislegri pólskri konu.

Þetta með hvað fjölskyldu jólaboð, geta í dag orðið svo mikil hrærigrauta partí, með skilnaðar börnum, á ská systkinum og þeirra kærustum o.fl… Minnir mig oft á þemað í sænsku grín bíómyndinni “Tomten är far till alla Barnen

Sem sagt, það er “Jólasveinninn” í fjölskyldunni sem á öll börnin.

Eilífðar vinur og sálufélagi!

Þannig erum við karlmenn gerðir, hugsa ég… eftir langt og innilegt faðmlag, að við þurfum sjaldan að láta mikið af formlegu kurteisi bulli ganga okkar á milli, áður en alvöru samtal byrjar. Það var eins og að við hefðum hitts seinast í gær. Það er nú reyndar þannig farið með akkúrat með þennan ekta sjóara vin minn, að þrátt fyrir að við ekki hittumst svo of í raunheimi, þá höfum við spjallað mikið saman á Messenger, í meira en áratug og fylgst úr fjarlægð, með hvor öðrum gegnum sameiginlega vini og Facebook lengur en svo.

Við höfum átt mörg djúp trúnaðar samtöl og gert upp og stutt hvorn annan, varðandi allskyns góðar og slæmar minningar í ákafri og einlægri 12 spora heimspeki lærdóms vinnu í tvo áratugi. Við getum samt enn þá, bæði grátið saman og hlegið að okkur sjálfum og allskyns fyllerís ævintýrum unglingsáranna heima á Sigló.

Samtímis finnum við fyrir ákafri eftirsjá og sorg, yfir því að svo mörg vínanda vanþroska ár fóru í vitleysu, sem særðu ekki bara okkur sjálfa, heldur kannski mest, alla þá sem stóðu okkur næst. Okkar eigin nánustu, ástkæru ættingja, nokkrar fyrrverandi góðar eiginkonur, alsaklaus börn og óteljandi horfna vini…

Já, það kostar að hafa Bakkus sem átrúnaðargoð frá táningsaldri.

Þögn og samþykki ríkti nú á milli okkar æskuvinanna, um að það gagnar engum að við tveir lifum í sorg og eftirsjá. Það eina sem gildir nú, er að ná loksins því karlmanna þorskastigi, sem beina brautin býður upp á. Nefnilega að kunna að fyrirgefa og elska RÉTT, bæði sjálfan sig og þá sérstaklega aðra, sem við höfðum svo sannarlega brugðist.

Í stuttum djúpum fréttum af pólsku kærustunni sinni, sem ég hef aldrei hitt, sitja þessi orð hans eftir í mér:
Skrítið að vera kominn yfir sextugt og finna í fyrsta skiptið á ævinni að maður sé virkilega elskaður og ég skil fyrst núna hvað sönn ást og kærleikur er! Ég get loksins, loksins, elskað aðra manneskju, svo áreynslu og átakalaust… þetta er dásamlegt! Samt er þetta allt saman, stundum hálf skrítið og þreytandi, en elsku vinur, misskildu mig rétt… ég skil samt að svona hreinar og heiðarlegar edrú ástar tilfinningar, eru bara eitthvað nýtt fyrir mér, en ég er alveg til í að venjast þessu.. hehe.

Ekkert af öllu þessu þurftum við að ræða lengi, hér og nú á okkar óvænta hittingi á Kaffivagninum, ég fór strax út í að tala um og sýna honum þennan Laxness sjómanna kvæða texta og svo svo fann ég lagið líka á Spotify, en þar heitir kvæðabálkurinn “Í lífsins ólgusjó“:

“Kveðið eftir vin minn…”

… og elsku vinur, þetta er svolítið skítið, því mér virðist það vera þannig að hann Hörður Torfason bætti við eigin texta, eftir þessi þrjú vers sem ég sýndi þér áðan. Þegar hann samdi ljúft lag við textann og setti á hljómplötu 1971.

Nú var ég gjörsamlega búinn að gleyma stað og stund og spilaði allt lagið fyrir hann… heyrðirðu þetta? Þarna byrjar fjórða versið á ” 🎶 þú snýttir þér oft í gardínu... með sigurbros á vör..” og svo, “þetta mannlíf er einkennilegt fyllerí og engin fær gert neitt við því… 🎵”

Hægt er að hlusta ókeypis á lagið “Kveðið eftir vin minn” eða í lífsins ólgusjó á Youtube.com.

Þetta er bara eins og við tveir, að syngja saman á Megasa texta fyllerí í denn heima á Sigló, segir vinur minn hlæjandi og skilur og finnur sig vel í minni samlíkingu við okkar ár í drengja kirkjukór Bakkusar sértrúarsafnaðarins.

Ég finn líka á þessu augnabliki fyrir innilegu þakklæti, yfir því hvað Bakkus er réttlátur guð, hann fer nefnilega aldrei í manngreinarálit. Þessi heimsfrægi vínanda-vírus sem fylgir með ókeypis úr messuvíninu hans, smitar alla jafnt! Menntasnobbara, jafnt sem saklausa sjómenn.

Þetta guðdómlega réttlæti, hefur líka gefið mér marga og óvænta góða vini, í mínu Bakkusarbata ferli.
Ég hef oft hugsað sem svo, að líklega eru lífsreyndir Íslenskir sjómenn, heimsins bestu sálfræðingar.

Þar fyrir utan eru þeirra góðu ráð alltaf ókeypis.

Í gamla sjómanninum, á næsta Kaffivagnsborði býr hafsjór af fróðleik!

Skyndilega heyrum við djúpa og ráma karlmanns rödd frá næsta borði.
“Fyrirgefið þið Strákar mínir, ég held að restin af textanum sé líka eftir Nóbelsskáldið okkar góða, hann gat oft verið lygilega klúryrtur… ”

Krúttlegt af honum að kalla okkur STRÁKA!

Þegar við litum í aldraða sjómanna andlitið á næsta borði, þá efaðist hvorugur okkar um að þetta væri ekki hárrétt athugað hjá þessum ókunnuga sjómanni. Okkar virðing og reynsla úr samtölum við marga eldir sjóara, var nefnilega að svona alvöru alþýðumenn, væru best lesnu fræðimenn landsins. Margir hverjir, búnir að lesa heilu bókasöfnin á sínum óteljandi mörgum sjómanna frívöktum.

Þar fyrir utan minnti hvítskeggjað andlit mannsins mig á karakterinn í “Gamli maðurinn og hafið” eftir Ernest Hemingway. Áratuga sjóbirta og hafssalt hafði sett sín virðulegu sjómanna spor í þetta andlit.

Hann var einfaldlega, svona fallega sjómanna sólbrúnn allt árið, þó að hann væri löngu hættur að sækja sjóinn. Enginn þarf að efast um að svona menn, vita alveg upp á hár, hvað þeir eru að tala um og kunna auðvitað allt um sinn Laxness.

Kúmenkaffi & kveðjuorð!

Aftur gleymdum við vinirnir stað og stund, en ég tók svo smá spjallpásu og fór og spurði (eins og ég væri reyndur sjómaður) ungu afgreiðslu dömuna, hvort að hér væri kannski til alvöru KÚMENKAFFI, á þessum sögulega sjómanna veitingastað. Hún horfði forviða á mig og spurði:

Ha! Af hverju ætti maður svo sem að setja kúmen krydd út í kaffi?
Ég reyndi að útskýra þetta með að sjómenn gerðu þetta oft í denn, svona til að reyna að dylja soðbragðið af kaffinu, þegar það var búið að standa lengi á kabyssunni….
Ha… Kabyssunni… ??? það er svona gamaldags bátaeldavél….svaraði ég fræðimannalega.
Úff! Guði sé lof, þá hringdi bróðir minn í mig og ég gat forðað mér úr þessu vandræðalega samtali.

Hvar ertu eiginlega?
Það er að koma hingað 15 manns í matarborð eftir hálftíma og mig vantar meiri kartöflur og grænar baunir í dós með hangikjötinu… ÉG:.. og hvað, geturðu ekki bara skroppið út í búð? Nei, þú er með bílinn minn….

Þetta var svo sem gáfuleg ábending í leiðinlegum tón hjá jólaboðs stressuðum bróðir. Ég ætlaði segja eitthvað álíka bróðurlega gáfulegt á móti, en nennti ekki segja það upphátt, lofaði skjótri heimför, kvaddi kurteisislega og lagði á og hugsaði fyrir bara sjálfan mig:

OMG!
Það er ekki leiðum að líkjast og í rauninni er svo stutt á milli okkar að við bræðurnir vorum næstum því tvíburar. Bróðir minn er enn velstæður, vel menntaður hálfviti, kominn yfir sextugt og er enn að búa til börn…

Halló, halló Hafnarfjörður!
Það eru 32 ár á milli þess elsta og yngsta. Myndi ég nenna þessu. Nei, betra og líffræðilega eðlilegra að láta aðra búa til fleiri barnabörn, handa t.d. mér, sem á bara tvö yndisleg afakrútt…

Við Kaffivagns vinirnir, gengum saman að bílunum og kvöddumst með kossi og fyrir slysni höfðum við lagt hlið við hlið. Hann bakkar aðeins og skrúfar niður rúðuna og hrópar svo á mig:

Elsku vinur!
Mundu að eins og segir í Hávamálum að það er aldrei langt heim til góðs vinar, sama hvar þú býrð í heiminum.

Þetta var eitthvað svo týpískt hann, og þessi tilvísun í yfir 1000 ára gömul samskiptaráðgjafa orð, snertu mig djúpt og þetta minnti mig á hvað hann, sem valdi sjóleiðina út í lífsins ólgusjó og hafði aldrei húkkað sér far á menntaveginum, eins og ég, var djöfullega vel lesinn…

Heyrðu góði!
Sagði ég með smá öfundsýki í röddinni. Drullaðu þér heim og haltu áfram að vera ástfanginn upp fyrir haus. Kroppurinn á þér er svo sem hálf ónýtur, en það er greinilega ekkert að þér í hausnum, þú ættir kannski að skrá þig í háskólanám… í t.d. heimspeki eða bókmenntafræði!

Ég nenni því ekki… og svo keyrði hann hlæjandi í burtu.

Já, einmitt, hugsaði ég með hávaða kvíðakast í maganum á leiðinni í enn eitt jólaboðið. Hvað ætti svo sem svona sjóara lífsreynsluboltar að gera með háskólagráðu. Varla hægt að fá fleiri gráður en hann úr hörku háskóla lífsins.

Þessi vinur minn er einstakur karakter og hann hefur hjálpað mér að skilja lífið betur, en öll sú saman lagða þekking sem ég fékk úr bókum, á mínum langa menntavegagöngutúr…

…en ég þekki samt, furðulega marga svona alvöru þroskaða lífsreynslu SJÓMENN.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Teiknuð forsíðu mynd, sem og þessi mynd, eru framleiddar með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.

ATH. Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greinartexta. Vert er einnig að minna lesendur á að þessi smásaga er skáldskapur höfundar og að varasamt er að reyna að gefa sögupersónum nöfn úr mögulegum núlifandi einstaklingum. Eins og alltaf þegar ég skrifa mínar smásögur, er ég sjálfur sögumaðurinn, en ég fæ auðvitað margt og mikið að láni í sögunni. Allskyns uppsafnaða líf reynslu frá sjálfum mér, sem og frá mörgum persónulegum góðum vinum. Þeir hafa flestir verið með á hliðarlínunni í þessu sögu sköpunar ferli.

Gleðilegt sumar og kærar þakkir fyrir að þú nenntir að lesa alla leið hingað.

Nonni Björgvins