Rúmlega 550 nýnemar hófu nám sitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í haust, en kennaranám er einnig í boði við þrjá aðra háskóla hér á landi.

Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega milli ára, alls um rúmlega 200 á landinu öllu. Hlutfallslega var aukningin mest hjá Listaháskóla Íslands þar sem umsóknum um nám í listkennsludeild fjölgaði um 170% milli ára, en umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%.

Karlkyns umsækjendum fjölgar í þeim hópi en um helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þá fjölgaði einnig umsóknum um nám leiðsagnakennara.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Menntavísindasvið á dögunum og sagði þar meðal annars:

„Það er mér mikið fagnaðarefni að vísbendingar eru um að aðgerðir sem við réðumst í sl. vor til þess að fjölga kennurum séu þegar farnar að skila árangri. Umsóknum um kennaranám fjölgar verulega milli ára og einnig gekk mjög vel að útvega kennaranemum á lokaári launaðar starfsnámsstöður. Til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar þurfum við enn fleiri fjölhæfa og drífandi kennara og það er einkar ánægjulegt að fleiri íhugi nú að starfa á þeim vettvangi”

Á myndinni ræðir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við hóp nýnema á Menntavísindasviði HÍ.

Heimild: stjornarradid.is