Þann 26. apríl 2013 gekk ég í fyrsta sinn inn í útvarpsstúdíó sem þáttastjórnandi, ég hafði gengið með þennan draum í maganum í allnokkur ár og þennan dag rættist þessi draumur. Það var reyndar kominn smá kvíðahnútur í magann í staðinn enda hafði ég enga reynslu á því að stjórna þætti.
Gunnar Smári kom með mér og sýndi mér helstu hlutina sem ég þurfti að vita og ýtti mér úr vör með minn fyrsta þátt, hann reyndar staldraði stutt við og nokkrum mínútum eftir að þátturinn Eru ekki allir í stuði byrjaði þá sá ég í bakið á Gunnari og það rann upp fyrir mér að ég var orðinn einn í stúdíóinu og hnúturinn í maganum óx pínu lítið og ég er ekki frá því að það hafi runnið smá sviti niður bakið á mér. Síðar sagði hann mér að hann hafi séð það fljótlega að ég væri alveg með þetta en ég verð að viðurkenna að mér leið barasta alls ekki þannig.
En mikið var þetta skemmtilegt og þátturinn rúllaði nokkuð vel og án stóráfalla. Reyndar var þetta svo skemmtilegt að stuttu seinna varð þátturinn Frjálsar Hendur Andra til og var á dagskrá kl. 13 – 16 alla virka daga. Við þetta lifnaði FM Trölli nokkuð við og margir þættir fóru að heyrast á hinum ýmsu tímum.
Frjálsar Hendur Andra breyttist síðan í Undralandið og hefur sá þáttur verið sendur út frá Íslandi, Ítalíu og Gran Canaria.
Núna eru það þættirnir Miðvikan og Rokkboltinn sem eru í minni umsjón og það var einmitt í síðasta þætti Miðvikunnar sem ég átti 10 ára útvarpsafmæli ef afmæli skyldi kalla.