Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi, föstudagskvöld, barst aðstoðarbeiðni frá tveimur einstaklingum sem höfðu komist í sjálfheldu í Ytrárfjalli rétt vestan við Rauðskörð, rétt norður af Ólafsfirði.
Fólkið hafð verið á göngu frá því fyrr um daginn, var sæmilega búið og óslasað, en treysti sér ekki áfram né sömu leið til baka.
Björgunarsveitir frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri voru boðaðar út til aðstoðar. Veður var sæmilegt, þokkalegur hiti og lítill vindur, en ljóst að þoka gæti lagst yfir svæðið.
Fyrstu björgunarmenn komust að fólkinu upp úr miðnætti og var fólkið þá orðið frekar stirt og aðeins farin að finna fyrir kulda. Aðstæður í fjallinu þar sem fólkið var, voru erfiðar, talsvert brattlendi, klettar og laust grjót. Því þurfti að tryggja aðstæður eins og kostur var með öryggi allra í huga. Einnig voru heitir drykkir fluttir að vettvangi. Á meðan björgunarfólk fetaði sig upp brattann að fólkinu var hugað að því að koma ökutækjum inn dalinn til að auðvelda niðurför að aðgerð lokinni og var hægt að keyra buggy bíl og mikið breytta björgunarsveitarbíla upp torfarin slóða í dalnum.
Þegar hópur björgunarmanna voru komnir upp brattann að fólkinu var hafist handa við að tryggja aðstæður og undirbúa niðurför. Siglínur voru festar í bergið og fólkinu komið í sigbelti og undirbúið til niðurfarar.
Síga þurfti niður fjallið í þremur spönnum, eða þremur hlutum, þar sem sigið var niður hverja spönn fyrir sig áður en haldið var áfram. Verkið vannst hægt, fyrst og fremst vegna aðstæðna í fjallinu, en einnig lagðist þoka yfir svæðið um tíma og gerði björgunarfólki erfiðara fyrir. Hægt og rólega var fólkið aðstoðað niður hverja spönn fyrir sig.
Rétt fyrir fjögur í nótt var búið að aðstoða fólkið niður mesta brattann, en hluti björgunarmanna var enn í fjallinu. Þegar allir voru komnir niður þessa þriðju spönn, var hópurinn kominn á svæði þar sem göngufært var niður í dalinn, þar sem bílar björgunarsveita biðu eftir að flytja fólk og björgunarmenn niður dalinn.
Það var svo á sjötta tímanum í morgun að allir voru komnir niður dalinn. Síðustu björgunarmenn skiluðu sér í bækistöðvar rétt fyrir sjö í morgun.

Myndir/aðsendar