Tónlistarkonan Silja Rós vinnur nú að sinni þriðju plötu sem er væntanleg seinna á árinu. Annað lag plötunnar er lagið guess it would… sem Silja Rós samdi með kærastanum sínum gítarleikaranum og upptökustjóranum Magnúsi Dagssyni.

„Ég var undir miklum áhrifum frá Sabrinu Claudio og Jacob Collier þegar ég samdi lagið, viðlagið og textinn voru búin að vera til í einhvern tíma áður en ég og Magnús kláruðum lagið saman. Við eyddum síðan miklum tíma í að útsetja bakraddirnar í anda Jacob Collier of Moonchild.“ Magnús Dagsson sá um upptökur, mix og spilaði inn öll hljóðfærin nema trommurnar sem voru í höndum Bergs Einars. Skonrokk sá um masteringu. 

„Ég held að flestir geti fundið sína eigin tengingu við lagið og textann. Ég veit í raun ekki alltaf hvaðan textarnir koma, stundum eru þeir mjög persónulegir og stundum sæki ég innblástur úr gömlum dagbókum eða fæ jafnvel sögur að láni frá vinum. Mér finnst það í raun ekki skipta máli hvort listamenn nýti sínar persónulegu reynslur sem innblástur í lög eða ekki, þetta snýst meira um það að koma lögunum frá sér á tilfinningalegan hátt, vera góður sögumaður. Oft vill fólk kryfja lögin og fá að vita nákvæmlega um hvern lagið er, það getur verið spennandi. Mér finnst auðvelt að semja um það sem stendur mér nærri og þannig byrjaði ég að semja tónlist. Ég finn stundum fyrir pressu að semja bara persónulega tónlist og opna mig upp á gátt um erfiða reynslu en hef lært það af reynslunni að maður þarf ekki endilega að gera það til að semja góða tónlist.“

Silja Rós hefur mörg járn í eldinum um þessar mundir en til hliðar við tónlistina starfar hún sem leikkona og handritshöfundur.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir næstu mánuðum og þeim verkefnum sem eru á döfinni. Það er gott að finna fyrir því að öll vinnan seinustu ár og þolinmæðin eru að skila sér. Það eru forréttindi að fá að vinna við það sem maður elskar og að geta nýtt sköpunarkraftinn sem býr innra með manni í vinnunni. Ég elska að segja sögur hvort sem það er í gegnum tónlistina, leiklistina eða handritaskrif og er þakklát fyrir að fá að gera það.“

Lagið á Spotify


Mynd: aðsend