Á jólaböllum, verðum við öll börn aftur og trúum á 🎅 jólasveina og svo kemur það okkur oft á óvart að við kunnum jólalaga texta, sem við kannski lærðum fyrir hálfri öld eða svo.
Þetta skondna jólalag og textinn sérstaklega er svolítið Siglfirskt, því texta-höfundurinn, Hrefna Tynes var gift Sverre H. Tynes sem var Norsk/Siglfirskur maður. Hrefna er einnig þekkt fyrir að hún stofnaði kvenskátafélag á Siglufirði árið 1929.
Hún samdi einnig ýmsa skátasöngva og mikið af skemmtilegum vísum sem höfða til krakka á öllum aldri. Flestir kannast við orðin í fyrsta versinu, Í skóginum stóð kofi einn… og handalátbragði sem fylgja laginu, en sumir kannast líklega ekkert við seinna erindið.
Enda er það seinni tíma skáldskapur sem Gylfi Garðarsson bætti við, líklega 1996 og er það sjaldan sungið.
Í skóginum stóð kofi einn
(Lag : höfundur ókunnur
/ texti: Hrefna Samúelsdóttir Tynes)
Í skóginum stóð kofi einn,
sat við glugga jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn
sem vildi komast inn.
“Jólasveinn, ég treysti á þig,
veiðimaður skýtur mig”.
“Komdu hingað héraskinn,
því ég er vinur þinn”.
En veiðimaður kofann fann,
og jólasveininn spurði hann:
Hefur þú séð héraskinn
hlaupa‘ um hagann þinn?
Hér er ekkert héraskott,
hypja þú þig héðan brott,
veiðimaður burtu gekk,
og engan héra fékk.
Í heimild sem er lánuð frá Glatkistan.is er m.a. sagt, að lag og texti er t.d. á plötunni:
Gylfi Ægisson – Gleðilega jólahátíð með Gylfa og Gerði.
Það er greinilegt að þetta lag er enn mjög svo vinsælt jólalag og margar útgáfur er að finna á YouTube.
Textinn er í raun örsaga um góðhjartaðan Jólasvein sem vill ekki leyfa veiðimanni að skjóta lítinn sætan Héra í jólamatinn. Innblástur er líklega sóttur úr skógarsögum í Noregi, en þar bjuggu Hrefna og Sverre Tynes í 7 ár.
Það má til gamans geta að Ole Tynes og Indíana eiginkona hans, tengdaforeldrar Hrefnu, voru einstaklega góðhjörtuð hjón og þekkt fyrir góðverk sín á Siglufirði.
Guðrún M Guðbergsdóttir, sendi inn upplýsingar 05. desember 2011: Ljóshærði drengurinn er Jón Örn Jónsson, sonur Jórunnar Tynes og Jóns Sigtryggssonar prófessor. Dóttursonur Indíönu P.Tynes og Ole Tynes. sennilega 1941. Því miður vitum við ekki hver hinn drengurinn er. Ég er gift Jóni Erni. Hann er Ræðismaður fyrir Ísland í Regina, Saskatchewan, Kanada. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Ljósmyndasafn Siglufjarðar.
Því miður tókst ekki að finna ljósmynd af Sverre, en sjálft Tynes húsið, stendur enn við Aðalgötu 18, byggt 1906 og seinna var byggt við húsið að norðanverðu og bætt við kvistum.
Ég heiti eftir afa mínum og er því nefndur JÓN!
Hér kemur annar skemmtilegur texti eftir Hrefnu Tynes og líklega er hann saminn um son hennar Jon Arvid Tynes.
Sjá meira hér:
UM SIGLFIRSK VIÐURNEFnI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…
Gleðilegt jól!
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Jón Ólafur Björgvinsson 2017 / Skógrækt og foss á Siglufirði.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.