Nýlega voru haldnir íbúafundir á Ísafirði og í Súðavík vegna snjóflóðanna 14. janúar. Það er greinilegt að íbúar vilja fá upplýsingar er varða snjóflóðin og áhrif þeirra.
Á Ísafirði var gripið til rýminga í þessari hrinu og vildu íbúar frekari upplýsingar um öryggi snjóflóðagarða og forsendur rýminga. Snjóflóðasetur Veðurstofunnar er staðsett á Ísafirði og svöruðu þau Harpa Grímsdóttir og Tómas Jóhannesson fyrirspurnum fundargesta og sögðu frá starfseminni og viðvörunum, sem þeir gefa vegna snjóflóðahættu, bæði í byggð og á vegum, Í framhaldi af snjóflóðunum á Flateyri verður gripið til frekari öryggisrýminga ef þurfa þykir. Hópstjóri Samráðshóps um áfallahjálp á Vestfjörðum, Margrét Geirsdóttir hvatti íbúa til að vera vakandi fyrir líðan sinni og annarra og sækja sér aðstoð sem er í boði.
Íbúafundurinn í Súðavík var í gærkvöldi og var hann vel sóttur. Þó svo að ekki sé snjóflóðahætta í bænum sjálfum þar sem byggðin var flutt í kjölfar snjóflóðanna 1995 þá vekja snjóflóðin nú upp minningar og sterkar tilfinningar frá áföllunum 1995. Bent var á mikilvægi þessa að tryggja að enginn dveldi í gömlu byggðinni í Súðavík yfir vetrartímann. Einnig höfðu íbúar áhyggjur af einangrun byggðarinnar og aðstöðuleysi t.d. þegar Súðavíkurhlíðin er lokuð.
Á Flateyri er verið að ryðja snjó frá varnargarðinum, en snjór hefur hlaðist þar upp, Á íbúafundinum á Flateyri þann 20. janúar kom fram eindregin ósk um hreinsun á snjó við varnargarðinn.
Heimild: Almannavarnir.
Ljósmynd frá Siglufirði: siglo.is / Steingrímur Kristinsson