Þann 22. október var haldinn íbúafundur um málefni sem snúa að laxeldi í Dalvíkurbyggð og Eyjafirði en fundurinn var haldinn í félagsheimilinu að Árskógi. Góð mæting var á fundinn og komu gestir bæði innan og utan sveitarfélagsins. Markmið fundarins voru að kynna áform fyrirtækja um uppbyggingu og starfsemi í sveitarfélaginu á sviði laxeldis og að fá að heyra hug íbúanna.

Á fundinum var farið yfir gögn og kynningarefni sem snúa að laxeldismálum í Dalvíkurbyggð og Eyjafirði en byggðaráð Dalvíkurbyggðar hafði samþykkti á fundi sínum 4. október 2018 að upplýsa íbúa sveitarfélagsins um áform fyrirtækja um laxeldi í Dalvíkurbyggð. Fyrir liggja hjá sveitarfélaginu óafgreiddar umsóknir er varða málið og var þessi fundur liður í ákvarðanatökuferli sveitarfélagsins.

Auk kynninga frá sveitarfélaginu tóku fundargestir til máls og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Fundargestir töldu almennt að meiri kynningar og þekkingar væri þörf á málefninu og upplýsti Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE), að áformað er að halda AFE haldi kynningarfundi um laxeldi í Eyjafirði auk þess að gerð verði íbúakönnun meðal íbúa Eyjafjarðar um viðhorf til laxeldis í firðinum.

 

Frétt og mynd: dalvikurbyggd.is