Lögð fram drög að þjónustusamningi til eins árs við Fjallasali ses á 378. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar um varðveislu, viðhald og aðgengi að náttúrugripasafni sveitarfélagsins í Pálshúsi.
Í samningsdrögum kemur fram að sveitarfélagið greiði kr. 800.000 fyrir varðveislu, umhirðu og að safnið skuli vera aðgengilegt almenningi til skoðunar yfir sumartímann með auglýstum opnunartíma og að vetri eftir samkomulagi eftir því sem við verður komið.
Einnig kemur fram í samningsdrögum að íbúar með lögheimili í Fjallabyggð skuli fá gjaldfrjálsan aðgang að sýningarrými náttúrugripasafnsins svo fremi að ekki standi yfir aðrar sýningar í húsinu, þá er Pálshúsi heimilt að innheimta aðgangseyri af öllum gestum hússins.
Bæjarráð samþykkir framlögð drög að þjónustusamningi og felur deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála að undirrita samninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.