Einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu gegn inflúensu, einnig þótt þeir hafi þegar veikst af inflúensu í haust eða vetur. Heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili eru hvött til að gera eigin ráðstafanir varðandi almennar sóttvarnir til að minnka smitdreifingu innan stofnunar á flensutímanum svo sem varðandi heimsóknir, notkun andlitsgríma og handhreinsun. Inflúensan er fyrr á ferðinni en síðastliðna vetur, faraldurinn stendur yfir og er enn á uppleið. Fyrstu vikuna í desember lágu 27 einstaklingar á Landspítala með inflúensu.

Inflúensa er öndunarfærasjúkdómur af völdum inflúensuveiru. Á hverjum vetri gengur inflúensufaraldur venjulega á tímabilinu október til mars. Inflúensan veldur mismiklum veikindum hjá einstaklingum en veikindin geta verið alvarleg. Þegar smit eru útbreidd er meiri hætta á að einstaklingar í áhættuhópum veikist með alvarlegri afleiðingum, álag eykst einnig á heilbrigðiskerfið og í samfélaginu verður aukning á fjarvistum frá vinnu og skóla.

Áhættuhópar

Miðað við upphaf faraldra undanfarin ár og ef tekið er mið af fjölda greininga sést að fjöldi sjúklinga sem leggjast inn á Landspítala með eða vegna inflúensu á fyrstu 11 vikum faraldurs er mun hærri í ár en undanfarin ár. Í viðtali við Valtý Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalækni kemur fram að fjöldi barna hafi komið á bráðamóttöku Landspítala undanfarnar vikur vegna inflúensu og dæmi um að börn undir eins árs hafi þurft að fara í öndunarvél.

Þeir sem eru í áhættuhópi  og sóttvarnalæknir hvetur sérstaklega til að þiggja bólusetningu sem fyrst eru:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Börn undir 5 ára aldri sem náð hafa 6 mánaða aldri við bólusetningu.
  • Öll börn og fullorðnir með langvinna hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, offitu, illkynja sjúkdóma og aðra ónæmisbælandi sjúkdóma.
  • Barnshafandi.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Fólk í starfstengdri áhættu vegna hugsanlegs samsmits árlegrar inflúensu og fuglainflúensu.

Hægt er að bóka tíma í bólusetningu á mínum síðum á heilsuveru eða með því að hafa samband við sína heilsugæslustöð. 

RS-veirusýkingar og mótefni fyrir börn

Nánar er fjallað um inlúensufaraldurinn í tilkynningu sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis. Þar er jafnframt minnt á forvörn gegn RS veiru sem býðst nú fyrir öll ungbörn á Íslandi. RS-veirufaraldur er ekki hafinn hérlendis en fjögur börn yngri en tveggja ára greindust fyrstu vikuna í desember. Faraldrar af völdum RS-veirunnar eru árvissir, þeir koma að vetrarlagi og standa venjulega í 2–3 mánuði. Árlega er komið með um 20% barna undir eins árs til læknis vegna bráðrar RS-veirusýkingar. Af þeim má reikna með að 2–3% gætu þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Nánar má lesa um inflúensufaraldurinn og aðrar öndunarfærasýkingar í tilkynningu sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis og mikilvægi bólusetninga. Sóttvarnalæknir bendir á að árleg bólusetning við inflúensu dregur úr veikindum einstaklinga sem smitast og minnkar einnig álag á heilbrigðiskerfi, veikindafjarvistir og útbreiðslu til annarra.

Mynd/ Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins