Innflutningur á iðnaðarhampi er leyfilegur frá og með gærdeginum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sótt er um innflutninginn í þjónustugátt Matvælastofnunar og svo um undanþágu hjá Lyfjastofnun.
Með reglugerðarbreytingu hefur Lyfjastofnun fengið undanþáguheimild með stoð í 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni sem gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega. Heimildin er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið Tetrahydrocannabinol (THC).
Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um innflutning á fræjum af iðnaðarhampi, útbúið nýtt eyðublað fyrir slíkan innflutning og mun afgreiðsla umsókna hefjast í vikunni.
Til þess að flytja inn iðnaðarhampsfræ þarf að fylla út tilkynningu 5.08 í Þjónustugátt og með tilkynningu um innflutning þarf að fylgja:
- Gæðavottorð frá rannsóknarstofu (spírun og hreinleiki)
- Staðfesting á að um skráð yrki á sáðvörulista ESB sé að ræða
- Vörureikningur
Fylgiskjöl þurfa að vera á íslensku, ensku, dönsku, sænsku eða norsku.
Jafnframt þurfa þeir sem hyggja á innflutning á fræjum af iðnaðarhampi að sækja um undanþágu frá reglugerð um ávana- og fíkniefni til Lyfjastofnunar. Undanþága Lyfjastofnunar kemur til viðbótar við leyfi Matvælastofnunar og skal senda undanþágubeiðni til Lyfjastofnunar þegar búið er að vinna úr tilkynningu um innflutning.
Leiðbeiningar um undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um ávana- og fíkniefni má nálgast á vef Lyfjastofnunar.