Snúðar:

  • 1 pakki þurrger
  • 200 g smjör
  • 6 dl mjólk
  • 2 egg
  • 2½ dl sykur
  • 2½ tsk salt
  • 22-24 dl hveiti

Bræðið smjörið í potti og bætið mjólkinni saman við. Hitið í um 37°. Blandið öllum hráefnum saman og vinnið saman í deig (ef þið notið hrærivél látið hana þá vinna deigið í 10 mínútur, ef þið hnoðið í höndunum þá a.m.k. 10 mínútur). Látið deigið hefast undir viskastykki í 30 mínútur.

Fylling:

  • 200 g smjör við stofuhita
  • 2 dl sykur
  • 4 msk kanill

Á meðan deigið hefast er hráefnum í fyllinguna hrært saman.

Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvorn hluta út í aflanga köku (þannig að deigið verði í laginu eins og skúffukaka).

Smyrjið fyllingunni yfir og brjótið deigið saman eftir langhliðinni. Skerið í 4-5 cm strimla og skerið síðan upp í hvern strimil þannig að hann líti út eins og buxur. Snúið „buxnaskálmunum“ og vefjið síðan í snúð þannig að endarnir fari undir snúðinn (það má líka einfaldlega rúlla deiginu upp og skera í sneiðar).

Setjið á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Látið nú snúðana hefast í köldum bakaraofni með pott með sjóðandi vatni undir, í 60-90 mínútur. Penslið snúðana með eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 225° í 8-10 mínútur.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit