Helgi Jóhannsson sendi inn eftirfarandi grein.

Á fjárhagsáætlun 2020 er reiknað með 125 mkr. í framkvæmdir til að bæta aðgengi að íþróttamiðstöðinni á Siglufirði. Þörf framkvæmd og nauðsynleg.

Í byrjun september 2019 voru kynntar tillögur að þessum framkvæmdum fyrir fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar. Gert er ráð fyrir viðbyggingu sunnan við núverandi sundlaugarbyggingu (sunnan við núverandi búningsklefa ) þar yrði ný móttaka og þar undir nýir búningaklefar. Gert að sjálfsögðu ráð fyrir lyftu og stigum enda þarf að fara niður um 4,3 metra til að komast á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. Samkvæmt tillögunni er einnig gert ráð fyrir miklum framkvæmdum austan við sundlaugargaflinn. Þar á að koma fyrir heitum og köldum pottum, setlaug og sjóbaðsaðstöðu.

Ég hef velt þessum framkvæmdum töluvert fyrir mér. Því miður hefur skipulags- og umhverfisnefnd ekki enn fengið kynningu á þessum framkvæmdum en það hlýtur að styttast í að lokateikningar verði klárar.

Kannski hafa ýmsir aðrir kostir verið skoðaðir en engar upplýsingar hef ég um það. En skoðum þessar tillögur aðeins betur. Aðalástæða þess að farið er í þessar framkvæmdir er til að bæta aðgengi. Hér er lagt til að byggja tveggja hæða byggingu til þess að færa fólk af götuhæð niður á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. En væri vert að skoða þann möguleika að færa alla aðkomu að íþróttamiðstöðunni niður fyrir núverandi byggingar?

Ég sé fyrir mér byggingu upp við austurgafl sundlaugarinnar. Í þeirri byggingu yrðu nýjir búningsklefar, móttaka og vöktun starfsmanna. Ofaná þessa byggingu væri svo hægt að hafa glæsilegt setu- og sólbaðssvæði með frábært útsýni í allar áttir. Sunnan við þessa byggingu yrðu svo nýjir pottar. Með þessu móti hefðu starfsmenn góða yfirsýn yfir sundlaug og potta og örstutt í tækjasal og íþróttasalinn.

Heitur og kaldur pottur,setlaug og sjósundaðstaða

Öll aðkoma að íþróttamiðstöðinni yrði sunnan frá sem myndi létta mjög mikið á bílastæða vandamálum við Hvanneyrarbraut. Einnig yrði hægt að komast niður með sundlauginni að norðan, gangandi. Reikna má með að breikka þurfi landfyllingu austan við íþróttahúsið og sundlaug. Með þessu móti er öll aðkoma á sömu hæðinni og því mjög gott aðgengi.

Ég hef heyrt að það gæti verið vandamál með ræsið sem liggur í gegnum Hvanneyrarbrautina að líklegt væri að nýja viðbyggingin sunnan sundlaugar lendi beint ofan á henni. Ef það er raunin gæti þessi framkvæmd sem stendur til að fara í orðið mjög dýr og í ljósi þess því ekki að skoða aðra kosti? Kannski var það gert, ég veit það ekki enda sáralítil umræða farið fram um þessa framkvæmd.

Helgi Jóhannsson
Fulltrúi minnihluta H-listann í skipulags- og umhverfisnefnd.