Slysavarnafélaginu Landsbjörg bárust í gærkvöldi ábendingar um að galli væri í einhverjum rakettum sem seldar hafa verið í Rakettupakka 2.
Við prófun kom í ljós að einhverjar þeirra sprungu of snemma.
Því hefur verið tekin sú ákvörðun um að taka Rakettupakka 2 úr sölu og kalla inn þá pakka sem hafa verið seldir.
Þau sem hafa keypt Rakettupakka 2 eru hvött til að koma með hann á næsta sölustað og skipta honum út fyrir aðra vöru.
Hægt verður að skipta út pakkanum á morgun þar til sölustaðir loka, sem og á opnunartíma fyrir þrettándann.
Meðfylgjandi eru ljósmyndir af pakkanum og þeim rakettum sem í honum eru.
Slysavarnafélaginu Landsbjörg þykir miður að viðskiptavinir verði fyrir óþægindum vegna þessa, en öryggi okkar allra þarf alltaf að vera í fyrirrúmi.
Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg

