Stefán hljóp út úr flugstöðinni í Keflavík út í ískalda norðan sumar rokringningu og henti sér inn í bílinn hjá elskulegri eiginkonu sinni, sem var að sækja hann snemma morguns eftir fimm daga vinnuferð í Svíþjóðar. Hann skellti koss á hana Sibbu sína og ojar sig yfir veðrinu og segir… Þvílík viðbrigði, að koma úr 30 stiga hita í Gautaborg og í þetta helvíti…

Gekk allt vel með að fá í gang vara kælikerfið í þessu nýja gagnaveri, spyr Sibba og hún var ekkert að eyða orðum í að angrast út í veðrið.
Já, já svarar Stebbi og bætir síðan við að Svíunum fannst það hálf fyndið að þurfa að kalla á Ís-lenskan sérfræðing til að bæta við gagnavers kælinguna í þessari óvanalegu Skandinavísku hitabylgju.

Annars gerðist svolítið stórfurðulegt á Járnbrautarstöðinni í Gautaborg, þegar ég var nýkomin þangað af flugvellinum… Alveg makalaus einkennileg tilviljun að hitta hann “Simma sílesandi”, gamla bekkjarfélaga minn frá Sigló… ég hef ekki heyrt af honum eða séð hann í yfir tuttugu ár eða meira.

Ha… aldrei heyrt þig minnast á hann, af hverju var hann kallaður Simmi sílesandi? Einkennilegt viðurnefni…

Nei, það er ekkert skrítið að þú hafir aldrei heyrt mig minnast á hann og Símon hefur aldrei komið á árgangs mótin heima á Sigló og tja.. já hann var svolítið spes, tók aldrei þátt í neinum íþróttum eða félagsstarfi. Hann var mjög svo hljóðlátur og sílesandi, var sjaldan eða aldrei úti að leika með okkur krökkunum. Hékk mest á bókasafninu eða heima hjá mömmu sinni og pabba. Við vorum nágrannar lengi vel uppi á Hávegi og við voru ágætis vinir og leikfélagar… eða þannig. Hann var einbirni, bæði pabbi hans og mamma voru miklu eldri en allir aðrir foreldrar bekkjarfélaga minna. Ég hélt reyndar lengi vel að þau væru kannski bara afi hans og amma, ég vissi ekki mikið um þetta þá. Þau hjónin voru mjög svo indæl, en líka svolítið sérstök, voru bæði virkir meðlimir í Zíon trúarsöfnuðinum, minnir mig og héldu sig mikið útaf fyrir sig.

 Leiðir okkar Simma skildu síðan, þegar hann fór í Menntaskólann á Akureyri og ég flutti svo suður með foreldrum mínum. Rakst síðan á hann niðri í miðbæ tíu árum seinna og þá sagðist hann vera í Háskólanum, hann hafði víst byrjað í forleifafræði minnir mig, kláraði svo BA próf í bókmenntafræði, gaf út ljóðabók sem ég á reyndar heima og get sýnt þér. „Fljúgandi fiskar“ heitir þessi minnst sagt háfleyga ljóðabók. Það síðasta sem ég heyrði af honum gegnum annan skólafélaga, var að hann var þá að klára BA próf í sálfræði og var á leiðinni erlendis í Mastersnám. Já, þú skilur hvað ég meina… einn af þessum bráðgáfuðu eilífðar námsmönnum sem sjaldan eða aldrei klára neitt..

Já, ég skil, þekki eina svona vinkonu úr mínum árgangi… segir Sibba og hvað hittirðu hann bara rétt sí svona, þarna á Járnbrautarstöðinni?

Já, heyrðu, elskan mín, ég hélt ég yrði ekki eldri… ég var svolítið villtur þegar ég kom úr flugrútunni og geng síðan gegnum þessa stóru umferðarmiðstöð og yfir í áfasta “Göteborgs Centralstation“ járnbrautarstöðina, sé fljótlega að áframhaldandi lestarferð minni hefur seinkað um þrjá klukkutíma. Oh… þú veist hvað mér er illa við fólksfjölda og að það leiðinlegasta sem ég geri er að sitja og bíða á flugstöðvum og svoleiðis…

Heyrðu, þegar ég stend þarna ferðalaga pirraður á einhverskonar risastórri innanhúss göngugötu og svipast um eftir veitingastað sem selur almennilegan morgunverð, þá heyri ég einhvern segja fyrir aftan mig:

Stebbi… Stebbi Hreins, ert þetta þú?

Ég sný mér við og sé bara stóran skeggjaðan einkennisbúninga klæddan öryggisvörð, minn Íslenski haus, nær þessu ekki saman og ég skil ekki af hverju hann er að tala Íslensku við mig?

Ha…

Heitir þú Stefán Hreinsson? Ertu fæddur á Siglufirði?   

…og ég bara… alveg gáttaður. Já, já, hver ert þú?

Simmi… Símon Ákason, bekkjarbróðir þinn, sem bjó við hliðina á þér á Háveginum. Ég sá þig í kameru kefinu og zoomaði inn og var þá var nokkuð viss um að þetta værir þú.

Kameru, zomm…???

Ég meina öryggismyndavéla kerfinu, ég sé allt… er að vinna hérna við að fylgjast með fólki, gegnum 80 myndavélar og svo benti hann upp í þakið á nokkra staði og ég sá allavegana þrjár eða fjórar hvítar myndavélar, bara við þessa einu af mörgum göngugötum á Járnbrautarstöðinni.

Og hvað?  Var hann hámenntaður maðurinn, með fleiri háskólagráður að vinna þarna, spyr Sibba undrandi.

Ég var einmitt að hugsa það sama og sagði óvart: Simmi, þú ert bara eins og Georg Bjarnfreðarson í Næturvakta grínþáttunum. Hann var víst með fimm sænskar háskólagráður og…

… Sibba grípur fram í , sleppir bílstjóra augunum af Reykjanesbrautinni smástund og horfir stöng á eiginmanninn.
Stefán Hreinsson, er ekki í lagi með þig… Ha, þú.. þú byrjar samtal við gamlan vin með því að líkja honum við leiðinlegasta mann Íslands.

Hvaða æsingur er þetta… leyfðu mér að klára söguna, hann vissi sem betur fer ekkert hver Georg leiðinlegi var. Enda kom það fram að hann hafði ekki verið í neinum samskiptum við Ísland eða Íslendinga síðustu tvo áratugina eða svo. Simmi var víst búinn að vinna þarna í fimmtán ár og hann var að klára næturvaktina og hafði því nægan tíma í að spjalla við mig yfir morgunverði og margt og mikið af því sem hann sagði mér um sína hagi og líf kom mér verulega á óvart og sumt situr enn í mér.

Eins og hvað, spyr Sibba?

Ja… við kláruðum fyrst spjall um ýmislegt tæknilegt, ég sagði frá mínu starfi varðandi gagnavers kælingu o.fl. og hann vissi mæta vel að mikið magn af uppteknu öryggismyndavéla efni er geymst á slíkum stöðum og hann benti mér á þær miklu tækniframfarir, sem nú eiga sér stað í þessum eftirlitsmyndavéla geira. Hann gat t.d. stýrt vélum og snúið þeim 360 gráður, en mörgum af þeim nýjustu er stjórnað með gervigreind. Simmi sagði mér líka að það séu mjög strangar reglur, um hver má sjá efnið og hvernig það er notað í t.d. lögreglurannsóknum.

Svo spurði ég bara beint út hvernig stæði á því að hann hámenntaður maðurinn var í þessu alsjáandi starfi og þá kemur þetta skrítna, sem er svo eftirminnilegt og athyglisvert og þetta var allt saman mjög svo persónuleg frásögn hjá Simma sílesandi, núna alsjáandi.

Stebbi minn!
Af hverju þarftu alltaf að vera að uppnefna fólk…. Æi, Sigurbjörg… það er nú kannski bara til að krydda góða sögu, svarar gagnavera kælingar sérfræðingurinn Stefán Hreinsson, barnalega pirraður. Sibba mín, leyfðu mér bara að segja þér frá þessu í ró og næði.

Jú, hann sagði mér að hann kláraði reyndar Mastersnámið í sálfræði og var á góðri leið með á fá vel launaða doktorant stöðu við Göteborgs Universitet. Á þessum tíma var hann mikið að grúska í teóríum um “Empati” minnir mig að hann kallaði þetta. Sem sagt einhverskonar hugmyndir um að við manneskjur getum séð og fundið á okkur hvernig öðrum, jafnvel ókunnugu fólki líður, bara með því að horfa á það úr fjarlægð. Þú veist… tilfinningar sem liggja í loftinu og kúnstin við að lesa ýmislegt úr því hvernig fólk ber sig, hreyfir sig, talar o.fl.

Símon vildi prufa þetta á sér sjálfum og komst að því að einmitt þessi lestarstöð passaði vel í hans eigin rannsókn, svo hann settist niður hingað og þangað og reyndi að opna sjálfa sig og reyna að finna samkenndar, samhygðar og samhryggðar tilfinningar, hjá fólki sem sat og beið eftir lestum eða bara hjá þeim sem gengu fram hjá.

En hann sagði mér líka að hann komst fljótlega að því að þessi Lestarstöð var að mörgu leyti einkennilegur staður. Það er opið næstum allan sólarhringinn, lokað kannski tvo tíma yfir blá nóttina og um og yfir 90.000 manns kemur og fer á hverjum degi, en Sibba, sumir fara víst aldrei neitt…

Nú, hvað meinarðu?

Simmi benti mér allt í einu á miðaldra vel klæddan mann, sem sat álútur á bekk með tvær ferðatöskur fyrir framan sig og sagði svo, þessi hefur ekki farið neitt síðastliðin þrjú ár. Hann er heimilislaus og allt sem hann á, er í þessum tveimur töskum. Þarna er annar góðvinur okkar, eða já, reyndar þurftum að að handtaka þennan dósasafnara, tvisvar, um síðustu helgi, hann á við geðræn vandamál að stríða og átti slæma daga greyið og hótaði starfsfólki og gestum og svo hélt hann áfram að lýsa þessum stað. Hann sagðist ekki hafa tekið mikið eftir öllu þessu ógæfu fólki í byrjun, en svo ákvað hann í forvitni sinni að eyða heilli nótt á Járnbrautarstöðinni. Svo sofnaði Simmi víst á bekk eins og hver annar úti liggjandi vesalingur og undir morgunsárið kom öryggisvörður og vakti hann blíðlega og bauð góðan og blessaðan daginn.

Þessi elskulegi öryggisvörður virðist hafa haft veruleg áhrif á Simma og sagði honum ýmislegt athyglisvert um þennan einkennilega stað. Meðal annars að hér á mikið af allskyns utangarðsfólki sitt heimili og þeir öryggisverðirnir væru ekkert í því að gera lífið erfiðara fyrir fólk sem liggur nú þegar er á botni samfélagsins. Svo framarlega sem þetta fólk er ekki að trufla gesti og gangandi á stöðinni.

Hér gerist allt á milli himins og jarðar sagði Simmi alsjáandi. Fólk bæði fæðist og deyr hérna, ég fylgist með öllum í gegnum eftirlits myndavéla kerfið og svo tala ég við vinnufélagana á gólfinu gegnum talstöð og bið þá kannski að vekja suma sem hafa ekki hreyft sig lengi, til að athuga hvort þeir séu á lífi. Þessi sem vakti mig á sínum tíma sagði að hann sá strax að ég væri hvorki dópisti eða fyllibytta og líklega ekki geðveikur heldur, maður lærði fljótt á að kunna lesa fólk úr fjarlægð.

Já Stebbi minn, við lifum flest í okkar eigin örugga og fallega fiskabúri og sjáum ekki… eða réttara sagt viljum ekki sjá þessa hlið á lífinu, en þetta er vinnan mín núna. Að sjá einmitt þetta fólk, sem enginn vill sjá, vermda það og leifa þeim að sofa tryggt smástund, en þetta svokallaða undirheimalíf er stórhættulegt, sérstaklega fyrir konur.

Stórfurðuleg saga segir Sibba… en ertu að meina að hann Símon verðandi sálfræðingur, hljóp bara frá vellaunaðri framtíðar vinnu?

Og hvað?
Var þetta einhverskonar trúarleg köllun. Halelúja! Núna ætla ég að verða sjálfútnefndur alsjáandi öryggismyndavéla verndaregill í næturvinnu við horfa á ógæfufólk sofa í ró og næði.

Tja, Sibba mín, við spjölluðum lengi saman og Simmi sagði mér í trúnaði að hann var vissulega á viðkvæmum stað í sínu eigin lífi á þessum tíma. Honum hafði alltaf fundist hann hálf utangarðs í lífinu og í sínum samskiptum við annað fólk. Honum fannst eins og hann passaði ekki inn neins staðar, þar af hvarf hann mikið inn í sinn eigin bókalestrar ævintýraheim í barnæsku.

Stebbi minn, þú varst í rauninni minn eini barnæsku vinur, sagði hann og vildi meina að það væri einhverskonar guðdómleg karma tilviljun í að hann sá einmitt mig í eftirlits myndavélakerfinu.

Námsárin vildi hann einnig meina, voru líka einskonar veruleikaflótti, verndaður vinnustaður og heimur, þar sem hann kunni á leikreglurnar og Simma fannst allt í einu eins og að þessi teóríu menntaheimur væri falskur og ekki í neinum tengslum við veruleikann, lífið og tilveruna hjá venjulegu fólki.

Svo varð það víst mikið áfall að missa fyrst pabba sinn og nokkrum árum seinna mömmu sína og það sorglega var að hún sagði honum rétt áður en hún dó, loksins sannleikann um að hann væri ættleiddur.

Ég fæ þá að vita að ég er ekki fæddur á Íslandi, sagði hann sorgmæddur. Ég er ekki einu sinni alvöru Íslendingur.

Nú og hvar ertu þá fæddur Simmi minn? Spyr ég hughreystandi.

Í Rússlandi… og eins og ástandið í heiminum er í dag, getur maður ekki verið stoltur af því, varla hægt að segja það upphátt heldur… Mér líður oft eins og að ég sé samfélagslega munaðarlaus maður og hef kannski þess vegna enga samtengingu við Ísland og meiri samkennd með utangarðsfólkinu hérna á þessari Járnbrautarstöð.

Elsku Sibba mín, þú veist að ég er svo sem enginn tilfinningabolti, en ég bæði fann og sá hvað barnæskuvinur minn var miður sín og mér fannst eins og tilviljanir lífsins væru búin að lemja þennan góðhjartaða mann nægilega mikið. Fann mig knúinn til að segja eitthvað hughreystandi og upplyftandi, eitthvað stórt, beint frá hjartanu.

Svo heyri óvænt ég sjálfan mig halda mjög svo sannfærandi tilfinninga ræðu, eitthvað svona….

Elsku vinur!
Já ég meina það sem ég segi Simmi minn. Þú varst mér góður vinur og nágranni og ég man það eins og það hafi gerst í gær, hvernig þú alltaf vildir öllum vel og þú, þá sjaldan sem svo sem þú tjáðir þig, talaðir máli þeirra sem voru minni máttar.

Víst sit ég hér og nú á minnst sagt óvæntum fundi með góðum æskuvini frá Sigló. Eða er ég er kannski bara að tala Íslensku í útlöndum við Rússa, sem fyrir slysni kann þetta einkennilega tungumál.

Ha, er ég ekki að tala við al íslenskan strák, sem ólst upp heima á Siglufirði, eins og ég sjálfur. Ég er reyndar ekki fæddur á Sigló en ég er samt rosalega mikill Siglfirðingur og það ert þú líka, það skín í gegn í öllu sem þú hefur talað um í okkar þriggja klukkutíma langa samtali.

Úps! Sibba, við vinirnir vorum alveg búnir að gleyma stað og stund og ég hrópa yfir mig. Simmi, ég er að missa af lestinni, labbaðu með mér út að “spor 16” brautarpallinum. Við rétt náðum að skiptast á símanúmerum, því hann er auðvitað ekki týpan sem hangir á Facebook.

En fyrirgefðu elskan mín…. ég bauð Simma í heimsókn til okkar, hann á engan að hér á Íslandi, við ætlum að fara saman heim á Sigló… er það ekki lagi, bara eina helgi eða svo…

Stebbi minn, réttu mér smá tissjú pappír, hann er þarna í hanskahólfinu.

Hvað! Sibba mín, ertu að gráta, fyrirgefðu fljótfærnina í mér elskan mín, ég get alveg afbókað þennan hitting,

Nei, Stefán Hreinsson, mig hlakkar svakalega til að fá að hitta þennan barnæsku vin þinn, ég finn mikla samkennd með honum og hans sögu, rétt eins og þú og ég er kannski ekki bara að gráta yfir þessari lífs raunasögu. Viðbrögð þín og samúð minntu mig á hvers vegna ég elska einmitt þig!

Víst getur þú oft verið með þykkan og stuttorðaðan karlrembu skráp í tilfinningamálum… en þegar eitthvað bjátar á, getur maður alltaf stólað á að Þú hlustir og svo sýnir þú samúð í sönnum hughreystandi orðum.

Hugsaðu þér hvað þetta eru sterkar og flóknar tilfinningar sem liggja í öllum þessum “sam- orðum” eins og t.d. sam-kennd, sam-hygð, sam-hryggð og sam-úð. Ha, hann Simmi vinur þinn var að leita að einhverskonar meiningu í sínum lífi og samúðar tilfinningum sem héngu í loftinu á Járnbrautarstöð úti í Gautaborg fyrir 15 árum síðan. Svo smitast þessi tilfinning fyrir slysni yfir í þig og berst síðan yfir hafið og heim til mín á Íslandi.

Ég held að við verðum öll að vera duglegri við að vera okkar eigin sálfræðingar Stebbi minn. Stoppa annar slagið og minna okkur á hvað það er sem er mikilvægt í lífinu…

Já, mikið rétt hjá þér elskan mín og þið konur hafið alltaf verið betri í þessu en við karlar, þú grætur t.d. oft yfir væmnum bíómyndum sem mér finnst…

Nei, Stefán Kári Hreinsson!
Segir Sidda ákveðinn á svip, samúð er líklega meðfæddur manneskjulegur eiginleiki og hefur ekkert með kyn að gera… Sumir þurfa kannski að æfa sig aðeins meira en aðrir í að setja sig inn í spor annarra og sýna samúð með því að einfaldlega hlusta án þess að dæma.

Stebbi kinkaði bara kolli og það liggur oft í loftinu að þögn er sama og samþykki, svo rétti hann ósjálfrátt hendina yfir í bílstjórasætið og þau héldust í hendur alla leiðina heim til Hafnarfjarðar.

Bíllinn var sem betur fer sjálfskiptur, því þau hjónakornin vildu hvorugt sleppa takinu, það var langt síðan þau höfðu áttu sér svona innilega samkenndar stund.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmyndin er framleidd með aðstoð frá Microsoft Bing AI gervigreind.