Af hverju ættu karlar að verða leikskólakennarar?

Stutta svar okkar við þessari spurningu væri einfaldlega „hvers vegna ekki“?

En ef við tölum í fullri alvöru þá fylgir því að starfa á leikskóla margskonar jákvæður ávinningur. Fyrir það fyrsta myndum við telja leikskólastarfið eitt af þeim störfum sem mögulega gefur hvað mest af sér í ljósi þess að hver vinnudagur er einstakt ævintýri, vinnuvikan flýgur áfram á ógnarhraða auk þess sem enginn dagur í vinnunni er eins. Þá er vel er vitað og ritað að börn eru vel flest einhverjir mestu gleðigjafar sem hægt er að finna og það að starfa á leikskóla getur alið af sér ótal góðar stundir og minningar sem líklega munu lifa með okkur ævina á enda.

Það er okkar mat að það séu forréttindi í sjálfu sér að starfa á leikskóla og starfa með börnum á leikskólaaldri í leik og starfi, fylgjast með þeim þroskast, takast á við fjölbreytt verkefni, upplifa sigra, ósigra og margt fleira.

Það eitt að geta haft áhrif á nám og þroska barns á hverjum degi og geta síðar séð afrakstur vinnu sinnar, hvort sem er í námi, starfi eða í samfélaginu síðar meir er frábær tilfinning, svo ekki sé minnst á þá samvinnu við foreldra sem síðar á förnum vegi þakka manni fyrir það sem maður hefur gert fyrir barnið þeirra í leikskólanum. Það eitt að hafa haft áhrif í lífi annara til hins góða er tilfinning sem gefur leikskólastarfinu ómetanlegt gildi.  

Starfið á leikskólum í dag er bæði í senn kennsla og uppeldi, því er nauðsynlegt fyrir stéttina en ekki síður karlmenn að opna á þann möguleika að sinna starfi leikskólakennara eða starfsmanna í leikskóla. Við teljum jafnframt að karlmenn hafi margt fram að færa á sviði leikskólamála meðal annars í formi fyrirmynda breyttra staðalímynda í framtíðinni, það er að leikskóli sé ekki eingöngu vinnustaður fyrir konur og fyrir vikið verður starfið fjölbreyttara ef mannauðurinn er sem fjölbreyttastur. Þar fyrir utan hafa karlmenn margt fram að færa í starfi á leikskóla í formi gæða, kennslu og uppeldis enda erum við sem dæmi margir hverjir fyrirtaks feður. Þar að auki eru karlmenn í leikskólum fyrirmyndir þeirra barna sem hafa að öðru leyti engar karlmanns fyrirmyndir í sínu lífi fyrir utan skólann.

Við teljum það að starfa í leikskólum sé fjölbreytt, skemmtilegt og áhugavert framtíðarstarf. Við skorum á sem flesta (fólk af báðum kynjum) að taka slaginn innan veggja leikskólanna og upplifa gleðina. Þetta var lengra svarið. Lifi leikskólinn!

 

Járnkarlarnir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson

Höfundar er tveir nemar á meistarastigi í leikskólakennarafræði við Háskólann á Akureyri. Í byrjun seinasta árs tóku þeir höndum saman og lögðu af stað með verkefnið „Járnkarlarnir“ á samfélagsmiðlunum. Járnkarlarnir eru þeir Eysteinn Sindri Elvarsson og Magnús Hilmar Felixson báðir 33 ára búsettir í Reykjanesbæ og á Dalvík. Hafa þeir einsett sér að fjölga karlmönnum innan raða leikskólakennara. Á samfélagsmiðlunum hafa þeir fjallað um leikskólastarfið frá hinum ýmsu hliðum á fjölbreyttan, lifandi og fræðandi hátt. Þá hafa þeir gefið fylgjendum innsýn í störf sín þar sem fróðleikur, og léttleiki er í fyrirrúmi. Einnig taka þeir fyrir hin ýmsu viðfangsefni sem tengjast leikskólastarfinu með það fyrir augun að vekja athygli á leikskólastarfi.

Hægt er að fylgjast með Járnkörlunum á eftirfarandi samfélagsmiðlum:

Facebook: Járnkarlarnir

Instagram: Járnkarlarnir

Snapchat: jarnkarlarnir