Tónlistarmaðurinn Jóhannes Bjarki Sigurðsson, betur þekktur sem Jói Bjarki, hefur gefið út nýtt lag sem ber heitið Alone. Lagið kom út á streymisveitur 6. september, sama dag og hann fagnaði fimmtugsafmæli sínu og er í spilun á FM Trölla.
Jói Bjarki er fæddur og uppalinn á Hjalteyri í Eyjafirði en býr nú á Akureyri. Hann segir lagið fjalla um samband sem þarf að blása lífi í, til að eldurinn slokkni ekki. „Upprunalega var ég mjög hrifinn af versunum og brúnni, en fannst eitthvað vanta í viðlögin. Þegar ég fór að leika mér með raddanir lifnaði lagið við,“ segir hann.
Upptökur fóru fram á Akureyri í samstarfi við Hallgrím Jónas Ómarsson, sem sá um upptökur, mix og masteringu auk þess að spila á hin ýmsu hljóðfæri. Hallgrímur sá strax fyrir sér 80’s hljóðheim með syntha, reverb-trommum og grípandi bassalínum. Kristófer Logi, sonur Jóa, kom einnig að vinnslu lagsins með hugmyndir um hljóðheim í takt við áhrif TikTok á unga kynslóð.
Oddur Arg, ungur og hæfileikaríkur listamaður á Akureyri, gerði umslagið fyrir lagið. Hann hlustaði á lagið og túlkaði það með eigin listsköpun – og útkoman féll Jóa vel í geð.

Alone á Spotify: smelltu hér.
Hægt er að skoða fleiri lög með Jóa Bjarka á Spotify-síðunni hans.
Upplýsingar um lagið:
- Lag og texti: Jói Bjarki
- Útsetning: Jóhannes Bjarki Sigurðsson & Hallgrímur Jónas Ómarsson
- Upptökur, mix og mastering: Hallgrímur Jónas Ómarsson
- Söngur og bakraddir: Jói Bjarki
- Hljóðfæraleikur: Hallgrímur Jónas Ómarsson
- Artwork: Oddur Arg