Leó Ólason

Geimverurnar tala með skandínavískum hreim og koma hingað til að gera kornhringi. Það má alla vega lesa úr tilkynningu konu sem hafði samband við breska flugherinn í Suffolk til að tilkynna að hún hefði hitt geimveru. Tilkynninguna er að finna í skjölum sem bresk stjórnvöld hafa gert opinber.

Konan sagðist hafa verið úti að ganga með hundinn sinn þegar maður með ljóst hár kom upp að henni og byrjaði að ræða við hana. Hún sagði manninn hafa tjáð sér að honum þætti mikilvægt að tala við mannverur þó honum hefði verið bannað að gera það. Jafnframt hefði hann sagt að hann væri kominn til jarðar í friði og til að gera kornhringi.

Ekki virðist hann þó hafa fengið tækifæri til að segja konunni til hvers kornhringirnir væru því hún flýði eins hratt og fæturnir báru hana. Skömmu seinna segist konan hafa heyrt mikinn hávaða og séð fyrirbæri rísa til himins þar til það hvarf.

Skjöl frá árunum 1987 til 1993 sem innihalda tilkynningar um fljúgandi furðuhluti, hafa nú verið gerð opinber og er umrætt atvik frá árinu 1988. Þremur árum síðar tilkynntu tveir flugumferðarstjórar á Heathrow að þeir hefðu séð svart fyrirbæri sem leit út eins og bjúgverpill. Það hafi í fyrstu verið kyrrt en síðan flogið í áttina að sólinni.

Edgar Mitchell, fyrrum geimfari og tunglgöngumaður hjá NASA, sem meðal annars tók þátt í Apollo 14 leiðangrinum, heldur því fram að geimverur séu til.
Hann segir að geimverur hafi oftsinnis heimsótt jörðina en að yfirvöld séu búin að halda því leyndu í sex áratugi. Þetta kemur fram á vefnum news.com.au.

Mitchell sem er orðinn 77 ára gamall sagði í útvarpsviðtali fyrir fáeinum árum að heimildarmenn hans hjá NASA hefðu haft samskipti við geimverurnar sem væru litlar og undarlegar á að líta.
Þeim svipaði í raun til þeirra geimvera sem oftast birtust í kvikmyndum, litlar verur með stór höfuð og stór augu.
Hann bætti því enn fremur við að tækni þeirra væri margfalt lengra á veg komin en okkar og hefðu verurnar verið okkur fjandsamlegar værum við fyrir löngu horfin veg alllrar veraldar.

Mitchell á met í tunglgöngu ásamt fararstjóra Apollo 14, Alan Shepard, og gekk á tunglinu í 9 klukkustundir og 17 mínútur í för þeirra 1971.
“Ég er í þeirri forréttindaaðstöðu að vita af þeirri staðreynd að við höfum fengið heimsókn hingað á jörðina og að það eru til geimverur,” sagði hann.
Stjórnandi útvarpsþáttarins varð furðu lostinn yfir yfirlýsingum geimfarans.
“Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað geimfaragrín en honum var fullkomin alvara með að það væru til geimverur og það var ekki hægt að draga í efa.”

Þó flest virðist ætla að verða á móti okkur í framtíðinni og hver stórbömmerinn feti í slóð þess sem á undan gengur, þá hlýtur alltaf að vera von. Ég hef auðvitað talsverðar áhyggjur af framtíðinni eins og sjá má á þessum pistli.

En eftir allar þessar hyldjúpu og á köflum gallsúru pælingar, sem eftir á að hyggja benda mjög ákveðið til þess að stutt sé í að sá sem þetta ritar fari á límingunum, tel ég að heppilegast væri að fara að huga að Siglóferð innan tíðar, staldra þar við í nokkra daga og leggjast í hugleiðslu.

Kannski mér batni frekar þar.

 

Grein og mynd: Leó Ólason