Jóla og Ljúflingamót TBS fór fram um helgina - Myndir

Um helgina fór fram Jóla- og Ljúflingamót á vegum Tennis- og Badmintonfélags Siglufjarðar, TBS. Mótin voru vel heppnuð og einkenndust af góðri stemningu þrátt fyrir að færri iðkendur en ella hafi tekið þátt að þessu sinni.

Á báðum mótum var keppt í einliðaleik. Jólamótið var ætlað iðkendum í U13 og eldri flokkum en Ljúflingamótið fyrir yngri keppendur í U9 og U11. Alls tóku 12 krakkar þátt í mótunum, en nokkur forföll höfðu áhrif á þátttöku.

Jóla og Ljúflingamót TBS fór fram um helgina - Myndir

Keppni í U9 og U11 fór fram á sunnudeginum og þar fengu allir þátttakendur verðlaunapening að móti loknu. Í U13 og eldri flokkum var leikið í getuskiptum riðlum og fór keppnin fram annað hvort á föstudagskvöldi eða laugardegi.

Meðal úrslita helgarinnar má nefna að Marínó hafnaði í fyrsta sæti í U15 B-riðli og Guðjón tryggði sér sigur í U13 C-riðli. Katrín Una náði öðru sæti í U13 D-riðli, Þóra varð í öðru sæti í U13 E-riðli og Sigrún endaði einnig í öðru sæti í U13 F-riðli.

Næsta Unglingamót hjá TBS er á dagskrá í lok janúar og er reiknað með góðri þátttöku þegar líður á nýtt keppnisár.

Myndir: facebook / TBS – Tennis og Badmintonfélag Siglufjarðar