Trausti Jóns­son veður­fræðing­ur gef­ur júní­mánuði 0 í sum­ar­ein­kunn, þar sem eng­inn sum­ar­dag­ur hef­ur enn skilað sér í júní, að hans mati, og mun ef­laust ekki gera það það úr þessu. Hann skrif­ar um veðurfarið í mánuðinum sem er að líða á bloggsíðu sinni og reyn­ir að svara ýms­um spurn­ing­um.

Það hef­ur ef­laust ekki farið fram­hjá nein­um á suður og vest­ur­horni lands­ins að ansi blautt og kalt hef­ur verið í veðri það sem af er sumri. Trausti bend­ir þó á að veðurgæðunum sé vissu­lega mis­skipt á land­inu enda hafi aust­f­irðing­ar fengið mikið hlý­indi og sól þar skinið glatt.

Úrkoma hef­ur nokkr­um sinn­um verið meiri í Reykja­vík í júní held­ur en nú, síðast árið 2014. Aft­ur á móti eru al­veg þurr­ir dag­ar í mánuðinum ekki nema 5 til þessa – og verða vart fleiri. Trausta sýn­ist í fljótu bragði að úr­komu­daga­fjöldi í júní hafi ekki verið slík­ur nema tvisvar áður, árin 1960 og 1983. „Ólíkt fór um þau tvö sum­ur, það fyrra stát­ar einnig af ein­um lengsta sam­fellda þurrkakafla nokk­urs sum­ars – (í ág­úst) og er enn í minn­um haft fyr­ir gæði, en hið síðara var allt á versta veg, kalt, hvasst og blautt,“ skrif­ar hann.

Rign­ing­un­um hef­ur fylgt sér­stök deyfðartíð í lofti og meðal­skýja­hula í Reykja­vík hef­ur aðeins tvisvar verið álíka mik­il í júní­mánuði. Það var árin 1986 og 1988. Fjöldi sól­skins­stunda hef­ur að sama skapi verið ansi lág­ur, eða rétt rúm­ar 70 stund­ir. Enn er þó mögu­leiki á því að ein­hverj­ar stund­ir bæt­ist við á morg­un, ef vel fer.

Hæstu hita­töl­ur í Reykja­vík í júní eru rétt um 13 gráður en Trausti seg­ir það aðeins hafa gerst sjö sinn­um síðar mæl­ing­ar hóf­ust að há­marks­hiti í júní sé und­ir 14 gráðum.

 

Af mbl.is