Trausti Jónsson veðurfræðingur gefur júnímánuði 0 í sumareinkunn, þar sem enginn sumardagur hefur enn skilað sér í júní, að hans mati, og mun eflaust ekki gera það það úr þessu. Hann skrifar um veðurfarið í mánuðinum sem er að líða á bloggsíðu sinni og reynir að svara ýmsum spurningum.
Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum á suður og vesturhorni landsins að ansi blautt og kalt hefur verið í veðri það sem af er sumri. Trausti bendir þó á að veðurgæðunum sé vissulega misskipt á landinu enda hafi austfirðingar fengið mikið hlýindi og sól þar skinið glatt.
Úrkoma hefur nokkrum sinnum verið meiri í Reykjavík í júní heldur en nú, síðast árið 2014. Aftur á móti eru alveg þurrir dagar í mánuðinum ekki nema 5 til þessa – og verða vart fleiri. Trausta sýnist í fljótu bragði að úrkomudagafjöldi í júní hafi ekki verið slíkur nema tvisvar áður, árin 1960 og 1983. „Ólíkt fór um þau tvö sumur, það fyrra státar einnig af einum lengsta samfellda þurrkakafla nokkurs sumars – (í ágúst) og er enn í minnum haft fyrir gæði, en hið síðara var allt á versta veg, kalt, hvasst og blautt,“ skrifar hann.
Rigningunum hefur fylgt sérstök deyfðartíð í lofti og meðalskýjahula í Reykjavík hefur aðeins tvisvar verið álíka mikil í júnímánuði. Það var árin 1986 og 1988. Fjöldi sólskinsstunda hefur að sama skapi verið ansi lágur, eða rétt rúmar 70 stundir. Enn er þó möguleiki á því að einhverjar stundir bætist við á morgun, ef vel fer.
Hæstu hitatölur í Reykjavík í júní eru rétt um 13 gráður en Trausti segir það aðeins hafa gerst sjö sinnum síðar mælingar hófust að hámarkshiti í júní sé undir 14 gráðum.
Af mbl.is