Málafjöldi júnímánaðar er nokkuð meiri en fyrri mánuði ársins en um 615 mál voru skráð til úrvinnslu hjá embætti lögreglunnar á Norðurlandi vestra í júní.

Verkefnin voru venju samkvæmt æði fjölbreytt, landsbyggðarlöggæsla er að mörgu leyti frábrugðin þeirri á höfuðborgarsvæðinu þar sem sérhæfing lögreglumanna er minni og meiri krafa um víðtækari þekkingu. Sami lögreglumaður getur til að mynda tekið á móti tilkynningu um breytt lögheimili erlends ríkisborgara, leyst úr verkefnum er varða lausagöngu búfjár, haft afskipti af ökumönnum vegna hraðaksturs og handtekið einstakling vegna gruns um líkamsárás, allt á sömu vaktinni.

Tvær bæjarhátíðir voru í umdæminu í júní og tókust þær báðar með miklum sóma. Annars vegar var sjómannadagshátíð á Skagaströnd og hins vegar jónsmessuhátíð á Hofsósi. Talsvert var um gesti á báðum hátíðum en skemmtanahöld fóru almennt mjög vel fram.

Lögreglan var til aðstoðar við borgarana í 16 málum, um helmingur þeirra mála var vegna andlegra veikinda einstaklinga. Í tveimur tilvikum var óskað aðstoðar lögreglu er ferðamenn voru í vandræðum m.a. við Hvítserk og á Þverárfjallsvegi. Önnur mál voru til að mynda tilkynning um yfirgefna bifreið er skapaði hættu og ölvaðan einstakling sem var til vandræða. Þá var lögreglan til aðstoðar við opinbera aðila í 16 málum, í langflestum tilvikum til aðstoðar við Þjóðskrá vegna staðfestingar skilríkja erlendra verkamanna.

Alls voru tilkynnt 25 tilvik er varða búfé, í langflestum tilvikum hafði verið ekið á sauðfé en í einhverjum tilvikum var um að ræða laus hross. Það er rúmlega tvöföldun frá fyrri mánuði enda sauðfé komið á afrétt, og æði margir vegir liggja um afréttarlönd.

Forvarna,- og fræðsluverkefni voru 8 að þessu sinni, en slík mál varða flest afskipti af ökumönnum yngri en 18 ára vegna hraðaksturs. Í þannig málum á ávallt að hafa samband við forsjáraðila barna og eftir atvikum er send tilkynning til viðeigandi barnaverndar.

Höfð voru afskipti af 80 útlendingum, en í langflestum tilvikum var um að ræða ökumenn er gerðust sekir um of hraðan akstur. Þá var kært í tveimur tilvikum er atvinnurekandi hafði ráðið útlending til starfa án atvinnuleyfis en ráðist var í sérstakt eftirlit með Skattinum og Vinnueftirlitinu.

Umferðatengd mál voru fyrirferðarmikil í mánuðinum, en 4 ökumönnum var gert að færa bifreiðar sínar til skoðunar m.a. vegna notkunar á filmum í rúðum. Þá voru 5 ökumenn áminntir vegna lagningar en þeir höfðu lagt bifreiðum sínum gegnt akstursstefnu. Og aðrir 5 voru kærðir fyrir slík brot.

Alls voru 178 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, sem er nokkur fjölgun frá fyrra mánuði. Líkt og áður aka flestir á 110-120 km hraða. Þó nokkrir ökumenn óku yfir 120 km hraða, og nokkuð margir yfir 130 km hraða og einhverjir óku hraðar en 150 km/klst. Slíkur ofsaakstur skapar gríðarlega hættu fyrir ökumann, farþega hans og alla sem á vegi hans verða. Þess má geta að sekt fyrir að aka á 111 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst er 80.000 kr. og viðkomandi fær auk þess 1 punkt í ökuferlisskrá. Þá var tilkynnt um 8 umferðarslys í umdæminu, meiðsl voru minniháttar en eignatjón nokkuð. Skráningarmerki voru fjarlægð af þremur bifreiðum. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka bifreiðum án tilskilinna réttinda og þá var einnig ökumaður sektaður fyrir notkun farsíma við akstur.

Tilkynnt var um eld í vélum í tveimur óskyldum málum, og þá var einnig tilkynnt um eignarspjöll. Að auki tók lögreglan á móti ýmsum tilkynningum er varða slys, tjón, áhyggjur af einstaklingum og grun um ölvun við akstur svo eitthvað sé nefnt. Þá var lögregla með venju samkvæmt fylgd á 17. júní, á sjómannadeginum ásamt því að lögregla var til aðstoðar vegna hrossastóðs er þurfti í gegnum Blönduós og hjólareiðahóps er átti leið um Svínavatn.

Mynd/lögreglan Norðurlandi vestra