Kaldhefað hunangsbrauð í ofnskúffu – 16 stykki
- 50 g ferskt ger
- 6 dl köld mjólk
- 3 dl haframjöl
- 50 g smjör, brætt
- 2 msk hunang
- 2 tsk salt
- 2 dl heilhveiti
- 11-12 dl hveiti
Um kvöldið:
Myljið gerið í skál og hrærið mjólkinni saman við þar til gerið hefur leyst upp. Hrærið haframjölinu saman við og látið blönduna standa í nokkrar mínútur. Bætið bræddu smjöri, hunangi, salti, heilhveiti og hveiti í smáum skömmtum saman við og hnoðið saman í deig. Látið hefast undir viskastykki í um 30 mínútur. Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og notið hendurnar til að fletja deigið út í ofnskúffuna. Skerið deigið í 4 x 4 stykki og sigtið smá hveiti yfir. Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp yfir nóttu.
Um morguninn:
Takið ofnskúffuna úr ísskápnum og látið hana standa við stofuhita í um 20 mínútur. Hitið ofninn í 230°. Bakið brauðið í miðjum ofni í 20-24 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit