Á dögunum fengu nemendur að kynnast kínverskri matargerð undir leiðsögn Teresu Cheung kennaranema sem hefur verið í vettvangsnámi og æfingakennslu í skólanum að undanförnu. Þetta var í áfanganum Matur og menning sem verið hefur einn vinsælasti valáfangi skólans um árabil.
Eins og nafnið gefur til kynna er markmiðið að kynnast menningu þjóða í gegn um mat og matargerð. Síðustu ár hefur æ meiri áhersla verið á sjálfbærni og matarsóun í áfanganum og þannig er hann í sífelldri þróun eins og reyndar allt nám í Menntaskólanum á Tröllaskaga.
Í áfanganum læra nemendurnir að elda mat og um leið að taka ljósmyndir, myndskeið og skrifa uppskriftir á ensku. Markmiðið er að búa til rafræna matreiðslubók. Í henni verða þó ekki einungis uppskriftir heldur ýmsir skemmtilegir fróðleiksmolar um mat og matarhefðir. Þá stendur til að hanna vistvænar umbúðir og lógó fyrir verkefnið. Öllu verður svo safnað saman á vefsíðu og einnig er komin Instagram síða fyrir verkefnið.
Einnig stendur til að fara í tvær námsferðir og heimsækja samstarfsskólana. Í lok apríl verður farið til Ítalíu og næsta haust til Lanzarote. Í þessum ferðum gista nemendurnir í heimahúsum og fá þannig matarmenninguna beint í æð. Erlendu nemendurnir koma svo í heimsókn til okkar næsta haust.
Smellið hér til að skoða fleiri myndir
Mynd: Teresa Cheung leiðbeinir nemendum.
Ljósmynd. GK.