Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar

  • 4 kjúklingabringur (ég notaði kjúklingalundir)
  • 2 bollar grísk jógúrt
  • 2 msk hunang
  • 2 msk dijon sinnep
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 2 ½ bolli kornflakes

Hitið ofninn í 175°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla (eða notið kjúklingalundir). Hrærið saman grískri jógúrt, hunangi, salti og dijon sinnepi í stórri skál. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið saman þannig að marineringin hjúpi kjúklinginn. Setjið plastfilmu yfir kjúklinginn og geymið í ískáp í 20 mínútur.

Setjið helminginn af kornflakesinu í poka og myljið. Setjið helminginn af kjúklingnum í pokann og hristið hann svo að kornflakesið hjúpi kjúklinginn. Raðið kjúklingnum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og spreyjið smá af olíu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Bakaðar sætar kartöflufranskar

  • 2-4 stórar sætar kartöflur
  • 1-2 msk maizena mjöl
  • 1-2 ólívuolía
  • sjávarsalt
  • krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 210°. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og spreyjið smá olíu á hann. Afhýðið kartöflurnar., skerið í strimla á stærð við franskar kartöflur og setjið í stóra skál. Stráið maizenamjöli yfir og hristið vel svo að mjölið myndi létta húð um kartöflurnar. Setjið ólívuolíu yfir og hristið aftur þannig að kartöflurnar fái létta olíuhúð (þið gætuð þurft að bæta við meiri olíu). Dreifið úr kartöflunum á bökunarpappírnum þannig að þær myndi einfalt lag og liggi ekki saman. Bakið kartöflurnar í 15 mínútur, snúið þeim og bakið áfram í 15 mínútur til viðbótar. Fylgist með kartöflunum undir lokin og passið að ofbaka þær ekki.

Hunangssinnepssósa

  • 1/4 bolli majónes
  • 1/4 bolli dijon sinnep
  • 2 msk hunang

Hrærið majónesi og sinnepi vel saman. Bætið hunangi saman við og hrærið aftur þar til allt hefur blandast vel. Geymið í ískáp þar til sósan er borin fram.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit