Þann 6. apríl fékk ég skilaboð á messenger frá litlu systur minni Herdísi.
„Hæ Stóra mín. Sorry að ég sendi þér skilaboð, en ég taldi best að senda allar upplýsingar svona og hringja í þig á eftir.“
“Ertu til í að styrkja ME félagið um mynd sem mun birtast á forsíðu Norðurlands?“
„Ég er með hugmynd að gjörningi í kirkjutröppunum á Akureyri. 465 skópör, eitt par fyrir hvern þann sem var greindur með Akureyrarveikina um miðja síðustu öld….. er reyndar ekki komin með skó, en það reddast .“
„Þessi mynd þarf að vera klár fyrir hádegi 22. apríl og því er ágætis tími til stefnu. Hvað segir þú mín kæra? .“
Ég svaraði náttúrulega strax, ég myndi mæta með myndavélina… og einhverja skó. Sagði henni að ég væri á haus um hvítasunnuna, því mér fannst þetta vera mánuði síðar í huganum. Þá benti Herdís mér á að þetta væri sko eftir 2 vikur.
Við stefndum því að laugardeginum 21. apríl og fylgdumst vel með veðurspánni. Það kom mér alls ekki á óvart þegar Herdís sagði mér að hún væri komin í samstarf við Eyjafjarðardeild Rauða krossins um skósöfnun, enda vann hún sjálf fyrir Rauða krossinn í áratug. Skósöfnunartakmarkið náðist og áður en ég vissi af var ég á leið til Akureyrar með myndavélarnar.
Það rigndi á leiðinni frá Siglufirði og þegar við keyrðum út úr Múlagöngunum snjóaði. Við vorum því ekki sérlega bjartsýnar á framhaldið. Þegar við renndum inn á Akureyri var bara nettur úði og því ákváðum við að kýla á þetta.
Við mættum í Rauða krossinn og þegar Ingibjörg opnaði hurðina sé ég stafla af svörtum pokum og áttaði mig þá á því hvað þetta var í raun mikið af skóm. Með góðri aðstoð frá Rögnu Sif og börnum við að koma þessu niður að kirkju og fórum að raða. Ég leit upp og sá að það hafði bæst í hópinn og sagði Herdís mér að þetta væru alveg harðduglegir skíðakrakkar að austan, sem hún hefði fengið til að hjálpa okkur. Foreldrar og afi og amma biðu þolinmóð eftir krökkunum á meðan. Fljótlega var búið að raða öllum skónum og enn hékk hann þurr.
Ég fór að mynda eins og ég hafði lofað og sá strax hvað þetta var myndrænt og táknrænt. Það var heilmikill áhugi á þessu brambolti okkar hjá þeim sem áttu leið um. Herdís útskýrði tilganginn með verkefninu og sagði líka frá alþjóðadeginum 12. maí og ME sjúkdómnum.
Vel gekk að taka saman og gat ég ekki annað en hlegið þegar við systur vorum sestar inn í bíl eftir að búið var að troða síðasta skópokanum í fangið á mér og sagði, Herdís, þú er pínu klikkuð. Stórhuga framkvæmd sem varð að veruleika vegna þrautseigju og dugnaðar Herdísar.
Frétt Norðurlands um Akureyrarveikina má sjá hér: Akureyrarveikin #MILLIONSMISSING
Texti og myndir Herdís og Kristín Sigurjónsdætur