Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka kom og átti fund með fulltrúum stjórnar Velferðarsjóðs Húnaþings vestra föstudaginn 6. desember sl. og færði sjóðnum að gjöf kr. 516.000.

Ólöf hefur unnið að gerð bútasaumsteppa undanfarin ár og á umliðnu ári hefur hún farið vítt og breitt um Norðvesturland og selt gestum og gangandi nú síðast á jólamarkaðnum í Félagsheimilinu Hvammstanga.

Raunar er þetta þriðja árið í röð sem Ólöf leggur Velferðarsjóðnum lið og hefur hún styrkt sjóðinn samtals um kr. 1.400.000.

Ólöf var í byrjun þessa árs valin Norðvestlendingur ársins 2018 m.a. vegna þess hvernig hún heldur Parkinsonsjúkdómi í skefjum með því að sauma og selja bútasaumsteppi og gefa andvirði þeirra til góðgerðarmála í heimahéraði.

Þess má geta að Tannstaðabakka hjónin Ólöf Ólafsdóttir og Skúli Einarsson áttu 40 ára brúðkaupsafmæli í gær sunnudaginn 8. desember og fögnuðu þeim áfanga með að standa fyrir jólatónleikum Jólahúna.

Stjórn Velferðarsjóðs er bæði hrærð og glöð yfir þessu göfuga framtaki Ólafar og þakklát fyrir þann fallega hug sem býr að baki.

Ólöf (fyrir miðju) ásamt fulltrúum stjórnar Velferðarsjóðs

 

Mynd: Húnaþing vestra