Brunamálaskóli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hélt námskeið á Siglufirði nú um helgina. Slökkviliðsmenn frá Fjallabyggð og Dalvík tóku þátt í því og komu leiðbeinendur frá Brunavörnum Árnessýslu.

Námskeiðið var krefjandi þar sem farið var yfir þætti eins og vatnsöflun og reykköfun. Námskeið sem þessi gera slökkviliðsmenn færari í að sinna hlutverki sínu en einnig er nauðsynlegt til að miðla reynslu og þekkingu á milli slökkviliða.

Á námskeiðinu um helgina æfðu slökkviliðsmenn vatnsöflun og dælingu á Siglufirði. Þá var farið í krefjandi reykköfun í flugstöðinni á Siglufjarðarflugvelli en húsnæðið var fyllt af grevireyk. Þá var einnig farið í krefjandi reykköfun um borð í varðskipinu Freyju. Einnig voru tekin fyrir smærri atriði og verkefni en ekki síður mikilvæg.

Slökkvilið Fjallabyggðar vill koma á framfæri þakklæti til Landhelgisgæslunnar, Slökkviliðs Akureyrar og Fjallabyggðar fyrir að bregðast vel við beiðni um lán á búnaði og húsnæði fyrir námskeiðið um helgina.

Myndir og heimild/Slökkvilið Fjallabyggðar